„Látum ekki okkar eftir liggja“

Fjórar skurðdeildir eru til staðar í Klíníkinni. Landspítalinn hefur þegið …
Fjórar skurðdeildir eru til staðar í Klíníkinni. Landspítalinn hefur þegið hjálp frá fjórum hjúkrunarfræðingum þaðan, þar af tveimur skurðhjúkrunarfræðingum, ásamt einum svæfingarlækni. Árni Sæberg

„Strax á mánudagsmorguninn sendum við fólk sem við gátum losað og síðan erum við að reyna að bæta í eins og við getum. Við látum ekki okkar eftir liggja í að hjálpa spítalanum eins og við höfum tök á,“ segir Sigurður Ingibergur Björnsson, framkvæmdastjóri Klíníkurinnar.

Landspítalinn hefur fengið til liðs við sig einn svæfingalækni og fjóra hjúkrunarfræðinga frá Klíníkinni á skurð- og gjörgæsludeildir spítalans til þess að sporna við álagi vegna faraldursins.

„Búin að leggja niður plan fyrir þessa viku“

María Heimisdóttir, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sló á þráðinn til Klíníkurinnar á laugardag og lýsti ástandinu á spítalanum að sögn Sigurðar og kom þá ekki annað til greina en að hlaupa undir bagga.

„Við erum síðan að skoða fleiri leiðir til að aðstoða spítalann og mögulega nota okkar infrastrúktúr ef það passar. Þetta er kvikt ástand. Við erum í stanslausum samskiptum við þá og við erum búin að leggja niður plan fyrir þessa viku,“ segir hann en síðan verði að sjá hvernig faraldurinn þróast upp á næstu skref.

Aðspurður hvort SÍ muni niðurgreiða þjónustuna segir Sigurður að það verði raunin að einhverju leyti en áherslan sé ekki á fjárhagslega hlið málsins.

„Aðalmálið er bara að það er þarna veikt fólk sem þarf að sinna og auðvitað hendir maður bara öllu frá sér og fer í að sinna þeim sem þarf að sinna. Við erum ekki að gera þetta fyrir peningana,“ segir hann.

Plássum ekki fjölgað en létt undir með starfsfólki

Von er á tveimur svæfingalæknum í viðbót frá Klíníkinni, að sögn Ólafs G. Skúlasonar, forstöðumanns skurðstofa og gjörgæsludeilda á Landspítala.

Ólafur G. Skúlason, forstöðumaður skurðstofa og gjörgæsludeilda á Landspítala
Ólafur G. Skúlason, forstöðumaður skurðstofa og gjörgæsludeilda á Landspítala mbl.is/Golli

Hjúkrunarfræðingar og svæfingalæknirinn sem hafa þegar tekið til starfa hafa öll áður unnið á spítalanum og eru honum því vel kunn að sögn Ólafs. „Á meðal þeirra eru tveir vel reyndir skurðhjúkrunarfræðingar, annar þeirra fór á [smitsjúkdómadeild] A7 og hinn á Covid-göngudeildina á Birkiborg,“ segir Ólafur og bætir við að viðræður séu í gangi við fleiri einkaklíníkur.

Gerir þetta að verkum að hægt sé að fjölga gjörgæslurýmum?

„Þetta eru svo fáir aðilar eins og er og dreifðir á mismunandi deildir vegna hæfni. Það er ekki þannig að við opnum fleiri rými heldur er þetta frekar til þess að létta undir starfsfólki, svo það þurfi til dæmis sjaldnar að vinna tvöfaldar vaktir,“ segir Ólafur. 

„Allar hendur hjálpa. Þetta er mjög gott og við erum þakklát fyrir þetta,“ segir hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert