Öryrkjabandalag Íslands hefur sent nokkrum sveitarfélögum bréf fyrir hönd nokkurra tilgreindra barna á grunnskólastigi sem þurfa sérstaka aðstoð innan veggja skólans. Verði aðstoð við þessi börn ekki bætt á lögmaður ÖBÍ, Daníel Isebarn Ágústsson, von á að málið verði sótt fyrir dómstólum.
„Það þarf að meta sérstakar þarfir hvers og eins og veita síðan stuðning og aðstoð eftir forsendum hvers og eins barns. Það er samt alls ekki alltaf raunin og núna í byrjun skólans sendum við bréf þar sem við gerðum kröfu um að þessi börn myndu fá nauðsynlega aðstoð,“ segir hann.
Hvers konar aðstoð vantar?
„Það er misjafnt í hverju tilviki fyrir sig. Það vantar iðjuþjálfara, það vantar talmeinafræðinga, það vantar ýmsa þjónustu eða hún er ekki veitt til fulls, í of stuttan tíma eða of lítið. Það eru fjölmörg dæmi til,“ segir hann.
Í langflestum tilvikum sé auðvelt að leysa vandann en viljann skorti og fjármagn eflaust líka. „En það er ekki afsökun fyrir því að svipta fólk réttindum sínum,“ segir Daníel. Hann leggur áherslu á rétt allra barna til að stunda nám í grunnskóla og að sá réttur þurfi að vera raunhæfur, íslenska ríkinu og sveitarfélögum beri að veita börnum þeim stuðning sem þau þurfa til þess að geta stundað nám.
„Það er ekki nóg að vera með eitt til tvö úrræði og ætlast til þess að öll börn geti gengið í þau úrræði. Það þarf að meta sérstakar þarfir hvers og eins og veita síðan stuðning og aðstoð eftir forsendum hvers og eins barns,“ segir hann.
Hann segir að engin svör hafi enn borist frá stjórnvöldum en búist sé við svörum á næstu dögum. Ef ekki verði komið til móts við börnin sé nauðsynlegt að sækja málið fyrir dómi. „Við skulum vona að það þurfi ekki,“ segir Daníel.
Grasrótarhreyfingin Sagan okkar hefur hrint af stað átaki og birt myndbönd þar sem þekktir einstaklingar koma fram og segja reynslusögur barna og foreldra af kerfinu. Hreyfingin var stofnuð málstaðnum til stuðnings í maí síðastliðnum og Alma Björk Ástþórsdóttir, einn stofnenda hreyfingarinnar, segir að með því að aðhafast ekkert í málinu séu stjórnvöld að samþykkja vanrækslu á börnum.
„Þá eru þau að viðurkenna að það sé í lagi að börn séu kvíðin og með sjálfsvígshugsanir,“ segir Alma.
Hún fór að skrifa um málstaðinn um mánaðamótin apríl-maí með skírskotun til lagalegu hliðarinnar. „Okkur langar að vekja athygli á þessum mannréttindum sem verið er að brjóta,“ segir hún. Hún bætir við að spjótin beinist ekki að kennurum heldur stjórnvöldum, enda feli núverandi stefna í sér að starfsumhverfi kennara verði óviðunandi. „Þetta er löngu komið gott,“ segir Alma.