Forsetahjónin halda til Kaupmannahafnar

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú. mbl.is/Kristinn Magnússon

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú halda til Kaupmannahafnar í dag þar sem þau munu dvelja til 20. ágúst. Ferðin er farin í tilefni af „World Pride“ hátíðinni sem fer fram í Kaupmannahöfn og Málmey dagana 12.-22. ágúst.

Flytja ræður og halda ávörp

Í ferðinni munu forsetahjónin sækja fjölda viðburða og ýmist flytja þar ræður eða halda ávörp.

Má þar nefna setningarræðu forsetans á alþjóðaráðstefnu um mannréttindi í Øksnehallen í Kaupmannahöfn 19. ágúst og framsöguræðu hans á danska þjóðþinginu á alþjóðlega viðburðinum „Interparliamentary Plenary Assembly“ þann 20. ágúst en viðburðinn sækja rúmlega 200 stjórnmálamenn frá 53 löndum.

Eliza Reid forsetafrú mun halda ávarp á ráðstefnunni „Refugees, Borders and Immigration” í Málmey í Svíþjóð 20. ágúst, þar sem sjónum verður beint að stöðu hinsegin flóttafólks og hælisleitenda.

Mary krónprinsessa Danmerkur, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Eliza Reid …
Mary krónprinsessa Danmerkur, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Eliza Reid forsetafrú og Friðrik krónprins Danmerkur. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Funda með krónprinshjónunum

Á meðan Danmerkurdvölinni stendur munu forsetahjónin funda með Friðriki krónprins Dana og krónprinsessunni Mary, sem er verndari „World Pride“ hátíðarinnar í Kaupmannahöfn.

Þar að auki munu forsetahjónin sækja Jónshús heim, þar sem aðstaða er fyrir félagsstarfsemi þeirra fjölmörgu Íslendinga sem búsettir eru á Kaupmannahafnarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert