„Við verðum bara að fara að sætta okkur við að það séu hömlur og að það sé hið nýja norm í heiminum,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is um minnisblað sóttvarnalæknis þar sem hann lýsir framtíðarsýn í sóttvarnaaðgerðum.
Þórólfur Guðnason telur að takmarkanir þurfi að vera í gildi á meðan Covid-19 geisar í heiminum.
„Ég sé ekki að þetta sé neitt sem við getum haft neitt á móti eða komi til með að virka heftandi á ferðaþjónustuna. Ég á von á að þetta verði svona í heiminum víðast hvar um ófyrirséða tíð,“ segir Bjarnheiður.
Í minniblaðinu leggur Þórólfur meðal annars til að allir farþegar, og þar á meðal börn, verði skimaðir við komuna til landsins. Einnig að tvöföld skimun og sóttkví gildi áfram fyrir þá sem geti ekki framvísað gildum vottorðum.
„Ef ekki verður hægt að anna ofangreindum skimunum vegna fjölda ferðamanna þá legg ég til að leitað verði leiða til takmarka fjölda ferðamanna við þann fjölda sem okkar sóttvarnaráðstafanir ráða við,“ bætir Þórólfur við.
Bjarnheiður segir ferðaþjónustuna ekki geta sætt sig við að settar verði takmarkanir á fjölda vegna skimunargetu. „Það er eitthvað sem við eigum erfitt með að leggja blessun okkar yfir. Að það verði einhver flöskuháls.“
Samtök atvinnulífsins sendu frá sér tilkynningu fyrr í vikunni þar sem talið er að breyta þurfi gildandi reglum um sóttkví meðal annars til þess að lama skólastarf.
Bjarnheiður segir að Samtök ferðaþjónustunnar taki undir þetta ákall og að samtökin hafi miklar áhyggjur af reglum um sóttkví.
„Við höfum áhyggjur af því að atvinnulífið lamist útaf þessari hörðu sóttkvíarstefnu. Við teljum notkun hraðprófa vera skilvirkari, það er líka eitthvað sem mætti skoða á landamærunum.“
Hún segir að eftirspurn Íslendinga eftir utanlandsferðum hafi dregist saman eftir að þeir voru skyldaðir til að fara í sýnatöku innan 48 klukkustunda eftir komuna til landsins.
„Annars er staðan almennt nokkuð betri en við áttum von á eftir að við urðum rauð á öllum þessum listum. Það hefur einhver áhrif haft en ekki eins mikil og menn óttuðust.“
Bjarnheiður segir að ákveðið millibilsástand ríki nú þar sem fyrirtæki eru að átta sig á nýja norminu. „Veruleikinn er öðruvísi en við héldum að hann yrði eftir bólusetningarnar.“
Telurðu að fyrirtæki eigi eftir að snúa sér að öðru í ljósi stöðunnar?
„Nei, ég held að það aðlagi sig bara að þessum veruleika eins og ferðaþjónustan í heiminum öllum þarf að gera. Það verða áfram takmarkanir, skimanir og eitthvað vesen um ókomna tíð. Hlutirnir fara líklega í eðlilegt flæði seinna en við bjuggumst við.“
Bjarnheiður segir að ferðaþjónustan muni áfram þrífast þar sem vægi fólks og neysla til ferðalaga er svo mikil.
„Ferðamenn munu bara laga sig að ástandinu. Þetta mun komast á skrið innan skamms um leið og menn eru búnir að átta sig á að þetta verður svona eitthvað áfram.“