Reykjalundur mun tímabundið taka á móti sjúklingum frá Landspítala til þess að létta álagi af spítalanum. Sólarhringsdeild Reykjalundar, Miðgarður, er með 12 til 14 rúm fyrir einstaklinga sem þurfa hjúkrun allan sólarhringinn samhliða þverfaglegri endurhæfingu.
„Deildin verður nú nýtt fyrir sjúklinga sem flytjast beint frá Landspítala og fyrirsjáanlegt er að þurfi innlögn í sólarhringsþjónustu í allt að 6 vikur. Ef Landspítali nýtir ekki þessa heimild nýtir Reykjalundur lausu rýmin í samráði við Landspítalann. Samkomulagið tekur strax gildi og gildir til 28. febrúar 2022, þó með starfshléi yfir jól og áramót,“ segir í tilkynningu frá Reykjalundi.
„Markmið samningsins er að auðvelda útskrift af Landspítala í tengslum við Covid faraldurinn. Sérstök innlagnarnefnd, skipuð aðilum frá Reykjalundi og Landspítala, mun sjá um inntöku sjúklinga á Miðgarð á Reykjalundi í samræmi við verklagsreglur þar um.“
Af þessum sökum mun eitthvað draga úr hefðbundnum innlögnum meðferðarteyma Reykjalundar inn á Miðgarð en forstjóri Reykjalundar vonast til þess að það muni hafa lágmarksáhrif þar sem innlagnir undanfarið hafa verið takmarkaðar meðal annars vegna Covid-ástandsins.
„Að öðru leiti ætti þetta aðeins að valda lágmarkstruflun á annarri hefðbundinni starfsemi Reykjalundar. Starfsfólk Miðgarðs og aðrir starfsmenn Reykjalundar, sem að þessu verkefni koma, eiga miklar þakkir skyldar fyrir sitt framlag. Við í framkvæmdastjórn Reykjalundar erum sannfærð um að starfsfólk Reykjalundar leysir þetta verkefni með sóma og sendum bestur kveðjur til starfsfólks Landspítala.“