Tillögur um móttöku flóttamanna klárar fyrir helgi

Formaður flóttamannanefndar segir stjórnvöld vilja taka á móti afgönsku flóttafólki. …
Formaður flóttamannanefndar segir stjórnvöld vilja taka á móti afgönsku flóttafólki. Beiðni um tillögur þar um sé skýrt merki um það. AFP

Tillögur um móttöku flóttamanna frá Afganistan munu koma á borð Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, fyrir helgi. Þetta segir formaður flóttamannanefndar, Stefán Vagn Stefánsson. 

Ásmundur fór þess á leit við nefndina í vikunni að leggja fram tillögur um móttöku flóttamanna frá Afganistan, í ljósi valdatöku talíbana þar í landi. Nefndin fundaði í gær og eru fleiri fundir fyrirhugaðir á morgun eða á föstudag.

„Já, það er alveg klárt mál,“ segir Stefán Vagn spurður hvort tillögurnar verði tilbúnar fyrir helgi. 

Stefán Vagn Stefánsson.
Stefán Vagn Stefánsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Tekið verði á móti flóttamönnum en fyrst þurfi að ákveða hvernig það verður gert

Spurður hvort það sé hans mat að íslensk stjórnvöld ætli að ráðast í móttöku afganskra flóttamanna segir Stefán: 

„Nefndin var sett saman til þess að koma með tillögur. Eins og ég met það er það gert vegna þess að vilji stjórnvalda til þess að taka á móti flóttamönnum er til staðar. Það er hins vegar ríkisstjórnarinnar að ákveða þetta endanlega og ég get ekki talað fyrir hana. Við erum hins vegar fengin til að móta tillögur og það er þá væntanlega vegna þess að íslensk stjórnvöld vilja leggja sitt af mörkum eins og önnur ríki hafa sagst ætla að gera.“

Stefán Vagn segir að margt þurfi að hafa í huga við gerð tillagna um móttöku flóttamanna. Horfa þarf til þess hvaða hópa sé unnt að bjóða hér hæli, hvernig það skuli gert, hvað nágrannaþjóðir okkar gera í þessum efnum og þar fram eftir götunum. 

„Okkar vinna felst í því að átta okkur bara á ástandinu þarna úti og sömuleiðis hérna heima, hvað getum við tekið á móti mörgum. Hvernig getum við komið þessu fólki hingað, hvaða leiðir eru í boði? Þetta fólk þarf einhvers staðar að búa og það þarf að vera til staðar kerfi til þess að taka á móti þessu fólki, þannig við erum að reyna að átta okkur á því hvernig landið liggur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert