Útköllum vegna tannbrota fjölgar

Rafskútur hafa notið mikilla vinsælda hér á landi.
Rafskútur hafa notið mikilla vinsælda hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tannbrotum vegna slysa á rafhlaupahjólum hefur fjölgað verulega að sögn Karls Guðlaugssonar tannlæknis. Hafa útköll tannlækna vegna þessara slysa orðið talsvert áberandi síðastliðna mánuði og segir hann ástandið alvarlegt.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta er bara blákaldur veruleikinn. Nánast allir tannlæknar sem ég hef talað við þekkja dæmi þess að það hafa komið svona tilvik inn á þeirra stofu. Ég er ekki með nákvæma tölfræði en maður sér þetta í mun meiri mæli en áður, og bara alvarleg tannbrot.“

Karl segir skemmdirnar og brotin vera misalvarleg en engu að síður séu þau aldrei minni háttar fyrir einstaklinginn. Getur það tekið tannlækna allt frá hálftíma í að gera við einstaka brot og allt upp í marga mánuði ef skemmdirnar eru alvarlegar. Ef tönn springur eða eyðileggst, eða ef rótin er ónýt, þarf að draga tönnina út, setja bráðabirgðapart í bilið og síðar nýja tönn. Vekur Karl einnig athygli á því að minni brotin geti reynst afar hvimleið til lengri tíma litið og jafnvel valdið meiri truflun heldur en stærri brotin.

„Alvarlegu brotin eru miklu stærri mál í upphafi en svo er gerð varanleg viðgerð. En þótt brotið sé minna getur það orðið þrálátt verkefni að laga tönnina vegna þess að fyllingar brotna úr aftur og aftur. Ef það brotnar til að mynda framan af bitkanti á fólk það til að gleyma sér og kannski daginn eftir, eða eftir nokkrar vikur, bítur það eitthvað hart í sundur og fyllingin brotnar. Fólk þarf þá sífellt að koma í heimsóknir.“

Sorglegt að horfa upp á þetta

Að sögn Karls eru slysin mest áberandi meðal ungs fólks á tvítugs- og þrítugsaldri. Má í langflestum tilvikum tengja þau við áfengisneyslu um helgar en flest útköllin berast snemma á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Segir Karl sorglegt að horfa upp á ungt fólk með heilbrigðar tennur lenda í þessum óhöppum. Sé þessi þróun mikil synd, sérstaklega í ljósi þess að tannheilsa fólks sé nú mun betri nú en hún var fyrir nokkrum árum.

„Tanntjónin og alvarleiki þeirra eru svo sérstaklega ömurleg því þú ert með þessa ungu einstaklinga sem eru með allar tennurnar sínar stráheilar. Tannheilsan er orðin svo góð að það eru nánast engar skemmdir hjá þessum krökkum. Bara fallegar hvítar framtennur og svo lenda þau beint á andlitinu og brjóta þær. Það er grátlegt að fylgjast með þessu,“ segir Karl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert