Slys varð í Stuðlagili á Austurlandi síðdegis í dag, þar sem erlendur ferðamaður féll um 15 metra niður skriðu í gilinu. „Hefði hann farið beint ofan í ána hefði hann sennilega sloppið betur,“ segir fréttaritari mbl.is sem var á svæðinu þegar slysið átti sér stað.
„Ég var uppi á heiði á hreindýraveiðum með syni mínum í u.þ.b 12 kílómetra fjarlægð frá slysstaðnum þegar við fréttum af útkallinu. Sonur minn tekur upp kíkinn og sér alla strolluna koma inn eftir og ofan í gilið,“ segir hann um það þegar viðbragðsaðilar mættu á vettvang.
Telur hann ferðamanninn hafa slasast á leið sinni ofan í ána og að betur hefði farið hefði hann fallið beint í ána.
„Við urðum ekki vitni að slysinu sjálfu en ég veit að einstaklingurinn hrapaði niður af kletti austanvert við ána og lenti síðan ofan í ánni sjálfri. Það eru nokkuð háir klettar þarna sem hægt er að hrapa fram af. Sennilega hefur hann farið niður einhverja klettahliðina og slasast á leiðinni niður í ána. Hefði hann farið beint í hana hefði hann kannski sloppið betur.“
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir við mbl.is að tilkynning hafi borist viðbragðsaðilum frá öðrum vegfarendum á svæðinu. Að sögn fréttaritara hafi ekki liðið langur tími frá því að útkallið barst þar til fyrstu viðbragðsaðilar mættu á vettvang.
„Þetta hafa verið svona 50 mínútur frá því útkallið barst þar til lögregla og sjúkralið komu á staðinn. Við fylgdumst fyrst bara með úr fjarlægð en þegar við vorum komnir niður af heiðinni og á leiðinni þarna út eftir mættum við þyrlunni sem var þá að fara af slysstaðnum. Þeir voru greinilega vel undirbúnir og höfðu bara rétt lent á túninu,“ segir hann.
Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan ferðamannsins en að sögn fréttaritara heyrðist vel í honum þegar slysið átti sér stað og hann hafi verið með góða meðvitund allan tímann.
„Það var strákur þarna á svæðinu sem sagði að hann væri að öllum líkindum dálítið mikið slasaður.“