Ánægð með leikskóla og frístundaheimili

Alls 94% foreldra eru ánægðir með leikskóla barna sinna.
Alls 94% foreldra eru ánægðir með leikskóla barna sinna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Foreldrar barna í leikskólum borgarinnar eru almennt ánægðir með leikskóla barna sinna eða 94% samkvæmt nýjum niðurstöðum viðhorfskönnunar og er það sama niðurstaða og úr sambærilegri könnun sem gerð var á árinu 2019. Þá eru 92% foreldra almennt ánægð með þjónustu frístundaheimila barna sinna og telja að börnunum þeirra líði vel og þau séu örugg.

Hefur það hlutfall hækkað frá sambærilegum niðurstöðum kannana 2019 og 2017. Þetta kemur fram í umfjöllun borgarinnar á vefsíðu hennar um viðhorfskannanirnar sem gerðar voru í febrúar og mars sl. meðal foreldra barna í leikskólum, frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum borgarinnar.

Fleiri telja nú að barni þeirra líði vel en í könnun árið 2019

Almennt virðast foreldrar ánægðir með bæði leikskóla og frístundaheimili borgarinnar en tæp 97% foreldra leikskólabarna eru mjög eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að barninu þeirra líði vel í leikskólanum, sem er hækkun um eitt prósentustig frá síðustu könnun sem gerð var þar á undan 2019 og ríflega 94% foreldra barna í frístundaheimilum eru mjög eða frekar sammála þeirri fullyrðingu að barninu þeirra líði vel í frístundaheimilinu.

Í könnuninni á viðhorfum foreldra barna á frístundaheimilum kemur aftur á móti fram að hlutfall foreldra sem telja að barnið þeirra hafi orðið fyrir einelti hefur hækkað úr 8,4% á árinu 2019 í 9,3% í könnuninni sem gerð var á þessu ári. „Flestum börnum sem foreldrar segja að hafi orðið fyrir einelti virðist þó líða vel í frístundaheimilinu (80% sammála, 11% hvorki né og 8% ósammála),“ segir á minnisblaði skóla- og frístundasviðs.

Í könnuninni um frístundaheimilin kemur einnig fram að mikill meirihluti foreldra telja miklu máli skipta að heimilin séu opið á foreldra- og starfsdögum í grunnskólum.

Nokkru færri eða um 45% eru þeirrar skoðunar að miklu máli skipti að frístundaheimili séu opin í jóla- og páskafríum.

Bent er á á minnisblaði skóla- og frístundasviðs, að þeir þættir sem foreldrar voru síst sammála tengist óhjákvæmilega þeim sóttvarnaaðgerðum sem leikskólarnir urðu að viðhafa vegna faraldursins og óvenjulegum og á stundum færri foreldrafundum.

„Mesta breytingin var í fullyrðingunni Leikskólinn hvetur foreldra til þátttöku í leikskólastarfinu en aðeins tæp 60% voru sammála þeirri fullyrðingu miðað við 78% árið 2019. Þá voru færri sammála því að þeir hefðu tekið þátt í að meta framfarir barnsins (60%) og að leikskólinn haldi þeim upplýstum um framfarir barnsins (rúm 68%) frá því í fyrri könnun, en hlutfall þessara þátta lækkaði um u.þ.b. 7 prósentustig á milli kannana,“ segir þar. omfr@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert