Breytt landslag blasir við boltaunnendum

Liðsmenn Manchester United fagna þriðja marki sínu í stórsigri gegn …
Liðsmenn Manchester United fagna þriðja marki sínu í stórsigri gegn Leeds um liðna helgi. AFP

Það fór sjálfsagt ánægjutilfinning um marga um síðustu helgi þegar enski boltinn fór af stað að nýju. Áhorfendastúkurnar voru fullar, nóg var af mörkum og þetta var bara fyrsta umferð af 38. Enn bíða bikarkeppnir og Evrópukeppnir.

Veruleikinn sem blasir við hinum hefðbundna fótboltaáhugamanni, meðal-Birni sem vill fylgjast með sem flestum leikjum hjá sínu liði, er hins vegar öllu flóknari nú en verið hefur. Ekki er hægt að ganga að leikjum helstu liða á einni sjónvarpsstöð eins og var áður fyrr. Nú þarf að kaupa áskriftir á nokkrum stöðum og sjónvarpsbúnaður þarf að vera nýlegur ætli fólk að njóta upplifunarinnar almennilega.

„Nýja landslagið sem blasir við neytendum er að ef þeir ætla að horfa á alla leikina hjá sínu liði, segjum Manchester United eða Liverpool, þá þarf að sækja þá til þriggja aðila,“ segir Eiríkur Stefán Ásgeirsson, forstöðumaður íþróttadeildar hjá Stöð 2 og tengdum miðlum.

Þessir þrír aðilar eru Stöð 2 Sport, Síminn og Viaplay. Enska úrvalsdeildin er hjá Símanum en Stöð 2 Sport býður upp á Meistaradeildina, Evrópudeildina, Sambandsdeildina, enska deildabikarinn og FA-bikarinn, Championship-deildina, íslenska boltann og landsleiki annarra þjóða en Íslands. Leikir Íslands eru á RÚV í vetur. Á Viaplay getur fólk svo horft á Meistaradeildina, Evrópudeildina, Sambandsdeildina, dönsku Superliguna og þýsku Bundesliguna.

Það er því óhætt að segja að íslenskum neytendum standi til boða ágætt framboð af fótbolta næsta vetur. Hins vegar vekur athygli að engin stöð hyggst sýna leiki úr spænska eða ítalska boltanum. Þriggja ára samningar Stöðvar 2 Sport um sýningar úr báðum þessum deildum runnu út að loknu síðasta tímabili og voru ekki endurnýjaðir.

Réttinum skipt í fyrsta sinn

Í vetur verður í fyrsta sinn sýningarrétti Evrópukeppnanna skipt milli tveggja stöðva. Eiríkur segir að þetta sé þróunin í fjölmiðlum á heimsvísu. Fleiri afhendingarmöguleikar séu í boði nú en áður og þeir skili aukinni samkeppni. Gott dæmi um það sé Viaplay, aðili sem ekki starfi á Íslandi en dreifi þrátt fyrir það efni til Íslendinga í gegnum netið. „Þetta er þekkt stærð með Netflix og öllum þessum veitum. Íþróttir eru ekki undanskildar.“

Samkeppnin lækkar verð

Skipting sýningarréttar að leikjum í Evrópukeppnunum virkar þannig að fyrirtækin hafa fyrirframákveðna valrétti þegar kemur að leikjum. Þannig eiga stóru og vinsælu leikirnar að dreifast nokkuð jafnt. „Við höfum rétt á helmingi leikjanna. Í hverri viku eru alltaf tveir leikdagar og það er passað upp á við eigum alltaf fyrsta val til skiptis. Ef við segjum til dæmis að Liverpool og Napólí dragist saman ættum við að fá annan leikja þessara liða en Viaplay hinn.“

Eiríkur segir að vitaskuld myndi hann vilja geta boðið upp á alla leikina á kerfum Stöðvar 2 Sport en samkeppnin knýi fram breytt landslag. „Samkeppnin breytir því líka hvernig varan er verðlögð. Verð til neytenda hefur farið lækkandi. Nú er lægsti verðpunkturinn á áskrift hjá okkur 3.990 krónur en hann var mun hærri fyrir nokkrum árum.“

Verðið hefur lækkað mikið

Stóra spurningin fyrir neytendur er vitaskuld hvað þeir þurfa að borga fyrir herlegheitin. Í stuttu máli má segja að þeir borgi nú talsvert minna fyrir áskriftir hjá þremur miðlum sem tryggja þeim allan þann fótbolta sem býðst heldur en þeir gerðu þegar allur fótboltinn var sýndur hjá Stöð 2 Sport.

Fyrir nokkrum árum kostaði Sportpakkinn þar á bæ 14.900 krónur á mánuði. Nú kosta allar þrjár áskriftirnar 9.089 krónur á mánuði.

Áskrift að Viaplay kostar 1.599 krónur, enski boltinn hjá Símanum kostar 3.500 krónur og Stöð 2 Sport erlent kostar 3.990 krónur. Hjá íslensku stöðvunum getur bæst við aukagjald fyrir myndlykla ef fólk kýs að nota þá. Viaplay er hins vegar aðeins aðgengilegt í gegnum app.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert