Foreldrafélag og foreldraráð leikskólans Kvistaborgar lýsa yfir verulegum áhyggjum af ástandi húsnæðis leikskólans, fyrirhuguðum flutningi á starfsemi leikskólans í Safamýri 5, skorti á upplýsingum frá Reykjavíkurborg og töfum við ákvarðanatöku hvað varðar málefni leikskólans.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá foreldrafélaginu og foreldraráði leikskólans í dag. Eins og fram hefur komið í umfjöllun mbl.is og Morgunblaðsins um málefni leikskólans Kvistaborgar fengu foreldrar barna á leikskólanum upplýsingar um að grunur léki á myglu í húsnæði skólans í apríl.
Í vor voru tvær deildir leikskólans fluttar í skátaheimilið Hólmgarð. Húsnæði leikskólans hafði nýlega verið gert upp að miklu leiti, eftir að mygla hafði greinst í húsnæðinu árið 2017.
Í skriflegu svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurnum mbl.is í vor kom fram að gert væri ráð fyrir að börn myndu snúa aftur í lagfært húsnæði skólans eftir sumarleyfi. Nú er svo komið að skólastarf er hafið aftur í leikskólanum Kvistaborg og vinna við setja niður útiskála, til að gera kennslu á svæðinu mögulega, ekki hafin.
Þetta gagnrýna foreldrar sérstaklega. Til stendur að flytja starfsemi leikskólans, sem er í Fossvogi í Reykjavík, í Safamýraskóla. Sá flutningur er ekki hafinn en foreldrar fengu nýlega tilkynningu um að gera mætti ráð fyrir að starfsemi í Safamýrarskóla gæti staðið í sex mánuði og gert sé ráð fyrir að foreldrar komi börnum sínum sjálfir á milli staða.
„Þá er ljóst að fyrirhugaðir flutningar fela í sér að 74 börn þurfa að sækja leikskóla í öðru hverfi en Fossvogi og ætlast Reykjavíkurborg til þess að fjölskyldur hvers og eins þeirra komi þeim til og frá leikskólanum á álagstíma í umferðinni með tilheyrandi tíma- og vinnutapi og mengun. Þetta er ekki viðunandi og mikilvægt að fullkanna aðra húsnæðis möguleika nær Kvistaborg,“ segir í yfirlýsingu foreldra.
Að þeim tíma liðnum sé stefnt að því að færanlegir skálar verði komnir niður við leikskólann í Fossvogi og kennsla geti hafist þar að nýju.
Sem stendur er kennt í hluta húsnæðis leikskólans Kvistaborgar sem ekki hefur verið rýmt. Foreldrar benda sömuleiðis ýmsar brotalamir í upplýsingagjöf Reykjavíkurborgar. Sem dæmi hafa foreldrar ekki verið upplýstir um ástand hluta húsnæðis leikskólans sem er enn í notkun.
„Þá hafa foreldrar ekki fengið upplýsingar um hvort ákvörðun hafi verið tekin eða hvenær fyrirhugað sé að ákvörðun liggi fyrir um til hvaða ráðstafana verði gripið til að lagfæra húsnæði leikskólans og hve langan tíma það muni taka, t.a.m. hvort leikskólinn verði rifinn og endurbyggður eða hvort ráðist verði í endurbætur á húsnæðinu.
Jafnframt hafa foreldrar ekki fengið upplýsingar um af hverju húsnæði Safamýrarskóla varð fyrir valinu og hvort aðrir kostir hafi verið kannaðir. Enn fremur hafa foreldrar engar upplýsingar fengið um húsnæðið í Safamýri 5, t.a.m. ástand þess, stærð, öryggi, útileiksvæði o.þ.h,“ segir í yfirlýsingu foreldra.
Þá segja foreldrar það með öllu óásættanlegt að það geti tekið allt að sex mánuði að fá færanlega skála á leikskólalóðina.
Benda þau á að ekkert hafi gerst í máli leikskólans frá því í vor þó að vitað væri að húsnæði skólans væri ekki nothæft og framkvæmdir sem hafnar vor hafi verið stöðvaðar. Með því segja foreldrar dýrmætan tíma hafa farið í súginn.
Foreldrafélag og foreldraráð Kvistaborgar skora á Reykjavíkurborg að halda foreldrum betur upplýstum um stöðu mála og hraða vinnslu málefna leikskólans og ákvarðanatöku. Komi til þess að börnin þurfi að sækja leikskóla í Safamýri er farið fram á að boðið verði upp á rútuferðir til og frá Kvistaborg fyrir þá sem það vilja.