„Ég get dáið sáttur núna“

Tónlistarmennirnir Jói Pé og Króli rétt náðu að koma tónleikaferðalagi fyrir í takmarkalausa glugganum í sumar. Þeir voru nýfarnir af stað í tónleikaferðalag um landið þegar öllum takmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins var aflétt innanlands. Viku eftir að tónleikaferðalaginu, sem bar heitið Útumalt, lauk voru nýjar takmarkanir settar á.

Jói og Króli eru gestir í nýjasta þætti Dagmála.

Á meðan Útumalt stóð heimsóttu Jói og Króli, ásamt hljómsveit, 16 staði víðsvegar um landið á 29 dögum. Vegna kórónuveirufaraldursins höfðu þeir lítið spilað á tónleikum og voru því ekki alveg í formi til að spila svo þétt, en fögnuðu því að komast á svið.

„Líkaminn minn sagði nei. Á þrettándu tónleikum missti ég röddina,“ segir Króli. 

Súrrealískt að stíga á svið með sinfó

Vegna kórónuveirufaraldursins þurftu strákarnir að leita sér að öðrum leiðum en tónlistinni til þess að afla tekna. Þá segir Jói að það hafi verið virkilega erfitt andlega að fá ekki að spila. 

„Ég var farinn að sakna þess mjög mikið. Þess vegna var svo geggjað að ná þessum túr. Við spiluðum ógeðslega mikið og ég er mjög sáttur núna,“ segir Jói. 

Jói og Króli koma fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í kvöld og um helgina ásamt fleiri þekktu íslensku tónlistarfólki. Jói segir súrrealískt að þeir muni flytja tónlistina sína, sem er gjarnan á mörkum popps og rapps, með reyndu klassísku tónlistarfólki. 

„Að heyra lögin í þessum búningi er alveg geggjað,“ segir Jói.

„Ég get dáið sáttur núna, ég er búinn að fá að spila með sinfó,“ segir Króli um tónleika kvöldsins. 

Sinfóníuhljómsveitin útsetur lögin sem Jói og Króli rappa svo og syngja inn á. 

Tónleikarnir fara fram í Eldborg í Hörpu í kvöld klukkan átta, sömu sögu er að segja af föstudagskvöldinu og síðustu tónleikarnir fara fram á laugardaginn klukkan fimm síðdegis. 

Miðar eru fáanlegir á Tix.is.

Þætt­ir Dag­mála eru opn­ir áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má horfa á viðtalið við Jóa og Króla, sem heita full­um nöfn­um Krist­inn Óli Har­alds­son og Jó­hann­es Dami­an Pat­reks­son, í heild sinni hér. Mögu­legt er að kaupa vikupassa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert