„Ég hef alltaf verið ærslabelgur“

Ingibjörg sendiherra tekur í hönd Haraldar Noregskonungs við afhendingu trúnaðarbréfs …
Ingibjörg sendiherra tekur í hönd Haraldar Noregskonungs við afhendingu trúnaðarbréfs síns í ágúst 2019. Sendiherrar afhenda gjarnan nokkrir saman og fær hver einkafund með konungi, en efni þeirra funda er almennt ekki rætt opinberlega. Ingibjörg sagði Morgunblaðinu þó örlítið af fundi sínum með Noregskonungi. Ljósmynd/NTB/Scanpix fyrir norsku konungshöllina

„Ég er sveitabarn, frá Arnbjargarlæk í Þverárhlíð í Borgarfirði, fædd á Akranesi, næstelst fimm systkina,“ segir Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra Íslands í Ósló í Noregi, í upphafi spjalls, en eins og hér á eftir að koma kirfilega fram er Ingibjörg hugsanlega virkasti sendiherra lýðveldisins, samhliða ábyrgðarstörfum, þegar kemur að tómstundum og íþróttum, þar sem sjósundið á hug hennar allan auk þess sem hún hleypur, hjólar, leikur á píanó, sinnir prjónaskap af elju og ætlar að bæta við gönguskíðum næsta vetur.

Ingibjörg er dóttir Davíðs Aðalsteinssonar og Guðrúnar Jónsdóttur, sem búa á Arnbjargarlæk, fædd á því herrans ári 1970, á dótturina Alexöndru Mist, nema í listfræði við Háskóla Íslands, og ætlaði sér reyndar aldrei í íslenska utanríkisþjónustu, en enginn má sköpum renna eins og margfrægt er orðið.

„Ég ætlaði að verða íþróttaþjálfari eða íþróttakennari,“ rifjar sendiherrann upp af ljúfsárum æskuminningum þeirrar, sem lifað hefur nógu lengi til að vita, að til eru fræ, sem fengu þann dóm að falla í jörð án þess að verða endilega þau blóm, sem til var sáð í upphafi.

Sex ára á heimavist

„Ég byrjaði í heimavistarskóla, þannig var það í sveitinni í gamla daga, að börn voru send í heimavistarskóla. Ég byrjaði sex ára gömul í heimavist í Varmalandsskóla í Borgarfirði. Í framhaldi fór ég einn vetur í Reykholtsskóla í Borgarfirði til að ljúka grunnskólaprófinu þar sem ekki var hægt að ljúka því frá Varmalandi. Þá fór ég í Menntaskólann að Laugarvatni þar sem líka var heimavist. Samantekið var ég í heimavist frá sex ára til tvítugs og fannst alltaf gaman,“ segir Ingibjörg og hláturinn kumrar í henni í lágum bordún, svo gripið sé til gamallar líkingar nóbelsskálds þjóðarinnar.

Ingibjörg í fjallgöngu á Snæfellsnesi. Hún hóf störf hjá utanríkisráðuneytinu …
Ingibjörg í fjallgöngu á Snæfellsnesi. Hún hóf störf hjá utanríkisráðuneytinu í janúar 1999 og hefur síðan starfað víða um heim í krafti flutningsskyldu starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Ljósmynd/Aðsend

Hún ætlaði sér í kjölfar stúdentsprófs frá Menntaskólanum að Laugarvatni í Íþróttakennaraskóla Íslands, sem þá hét og var einnig á Laugarvatni, enda íþróttakona frá blautu barnsbeini, en örlögin gripu í taumana. „Það varð nú aldrei, ég innritaði mig í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og þar uppgötvaði ég þennan brennandi áhuga sem ég hef á utanríkismálum og því að vinna að hagsmunum lands og þjóðar,“ segir sendiherrann, sem hélt í kjölfarið til framhaldsnáms í alþjóðasamskiptum í Canterbury á Englandi, borg sem miðaldarithöfundurinn Chaucer gerði ódauðlega í Kantaraborgarsögum sínum.

„Það var mjög góður tími. Ég gerði nú ekki mikið annað en að læra, lærði allan sólarhringinn þennan tíma sem ég var þar, en skólinn er góður og þarna hafa fleiri Íslendingar numið, ég er afskaplega ánægð með dvölina þarna, þetta er ægilega fallegur miðaldabær og útskriftin var í dómkirkjunni. Skólinn stendur uppi á hæð þaðan sem horft er niður á byggðina og þarna er óskaplega gott að vera,“ rifjar Ingibjörg upp.

Kynnt fyrir sjósundi á afmælinu

Sendiherrann hefur marga fjöruna sopið, og kannski bókstaflega, þar sem eitt fjölmargra áhugamála Ingibjargar er sjósund, sem hún stundar árið um kring, nú við norskar strendur þar sem sær er ekki beint hlýjastur í heimi.

„Ég segi stundum að sjósund sé mitt jóga, sem kannski er hæpin fullyrðing þar sem ég hef ekki stundað jóga,“ játar sendiherrann glettinn. „Vinkona mín, Unnur Hansdóttir, sem vann með mér í forsætisráðuneytinu á sínum tíma, kynnti mig fyrir sjósundi á 45 ára afmælisdaginn minn árið 2015, um hávetur. Ég hélt þá að þetta yrði eitt skipti, en ég kolféll fyrir þessu sporti og hef stundað það síðan,“ segir Ingibjörg. Hún syndir í hefðbundnum sundfötum, en skrýðist auk þeirra lopahúfu, sjósundskóm og hönskum þegar norskur vetrarkuldi nístir hve næst beini.

Unnur Hansdóttir, samstarfskona Ingibjargar í forsætisráðuneytinu, dró hana með sér …
Unnur Hansdóttir, samstarfskona Ingibjargar í forsætisráðuneytinu, dró hana með sér í sjósund á 45 ára afmælisdeginum og hún kolféll fyrir þessari sundiðkun sem fagnar sívaxandi vinsældum. „Sjósundi fylgir andleg og líkamleg vellíðan sem ég á erfitt með að útskýra,“ segir sendiherrann. Ljósmynd/Aðsend

Dóttirin og háskólastúdentinn Alexandra Mist er að sögn Ingibjargar einnig farin að svamla í söltum sjó, sem gleður móðurhjartað. „Það er frábært að stunda sportið með henni líka. Hérna í Ósló syndi ég stundum með sjósundklúbbi norska utanríkisráðuneytisins, en ég syndi líka mikið við strendur Bygdø þar sem ég bý,“ segir Ingibjörg, en þar er íslenski sendiherrabústaðurinn til húsa og hefur verið alla þá tíð sem Íslendingar hafa haldið úti sendiherra í norsku höfuðborginni.

„Sjósundi fylgir andleg og líkamleg vellíðan, sem ég á erfitt með að útskýra, en gefur mér einnig mikinn kraft. Mér finnst sjórinn bestur þegar hann er sem kaldastur, þá er áskorunin mest, hvort tveggja andlega og líkamlega. Maður þarf að hugsa mikið um öndunina, hlusta á líkamann og að skynja kraftinn í sjónum er magnað,“ segir þessi íslenska valkyrja af iðkun sinni. „Ég er alveg klár á því, að þeir sem stunda sjósund eru hressari og skemmtilegri en gengur og gerist,“ bætir Ingibjörg við og er ekki örgrannt um að sannleikskorn leynist, þar sem sendiherrann borgfirski er hvort tveggja viðræðugóður og stórskemmtilegur.

Fimleikar of fíngert sport

Auk þess að synda í Atlantshafinu er Ingibjörg hlaupagarpur, hjólar mikið, prjónar, nam píanóleik sem ung kona og tekur aðeins í gítar. „Ég er stríðin og hef alltaf verið svolítill ærslabelgur held ég, alveg frá því ég var barn, æfði til dæmis frjálsíþróttir og var mín aðalgrein spjótkast, ásamt því að vera í fótbolta, sundi og borðtennis og fleiru, en ég hef aldrei verið í fimleikum, það er held ég of fíngert sport fyrir mig,“ segir sendiherrann og hlær. „Ég hef engan áhuga á að sækja líkamsræktarstöðvar, vil vera úti í náttúrunni, þegar ég er að hreyfa mig, það er kannski bara sveitabarnið í mér,“ segir hún hugsandi, en ákveðin. Mér finnst líka yndislegt að vera á fjöllum og í sveitinni.

Norski forsætisráðherrann Erna Solberg í forgrunni í hádegisverðarboði í sendiherrabústaðnum …
Norski forsætisráðherrann Erna Solberg í forgrunni í hádegisverðarboði í sendiherrabústaðnum á Bygdøy í Ósló í maí þar sem aðrir norrænir sendiherrar voru gestir íslenska sendiherrans ásamt ráðherra. Grímur og góð fjarlægð tímanna tákn. Ljósmynd/Aðsend

„Ég get eiginlega ekki svarað þér almennilega um hvernig gítarglamrið í mér kom til. Ég lærði á píanó sem barn og unglingur, einhver sjö eða átta ár held ég, en mig langaði líka að læra á gítar svo ég keypti mér gítar og nótnabók fyrir nokkrum árum og fór að pikka upp lög sjálf, mest sönglög, mér finnst þetta skemmtileg áskorun, en ég spila ekki beint fyrir framan fólk, þetta er mest fyrir sjálfa mig. Svo spila ég líka töluvert á píanó, ég á flygil heima í Garðabæ og svo er hljóðfæri hérna í sendiherrabústaðnum svo ég held mér þokkalega við,“ segir Ingibjörg.

Prjónaskapinn segist hún einkum hafa frá móður sinni, sem setjist aldrei niður án þess að prjóna. „Ég byrjaði á þessu fyrir nokkrum árum og prjóna nú bara mest á sjálfa mig og dóttur mína.“

Ingibjörg hefur því augljóslega margt á prjónunum og eitt af því er að vera fulltrúi fósturjarðarinnar í Noregi og þangað víkur talinu því nú. „Ég hóf störf sem sendiráðsritari í utanríkisráðuneytinu á Íslandi 1999, sem er diplómatísk staða með flutningsskyldu, sem táknar að maður er fluttur milli staða með nokkurra ára millibili. Maður er kannski X ár í Noregi, á Íslandi og einhvers staðar annars staðar, yfirleitt fjögur til fimm ár á hverjum stað, en frá því eru frávik, fólk getur verið skemur og það getur verið lengur,“ útskýrir Ingibjörg.

Stýrði mannréttindastarfi

Við upphaf starfa sinna sinnti hún mest því sem þá hét aðstoðarmál, en heitir nú borgaraþjónusta. „Þar fékk ég mjög góða reynslu við að takast á við þau mál, sem íslenskir ríkisborgarar lenda í eða þurfa að takast á við erlendis og að þeirri reynslu bý ég enn í dag. Árið 2000 var ég flutt til fastanefndar Íslands í Genf í Sviss þar sem gríðarmargar alþjóðastofnanir eru, meðal annars mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, og þessi fimm ár í Genf hlaut ég mjög fjölbreytta reynslu.

Á ferli sínum hefur Ingibjörg fengist við flesta flokka utanríkismála …
Á ferli sínum hefur Ingibjörg fengist við flesta flokka utanríkismála þótt ríkastan þátt skipi þar alþjóðastofnanir, mannréttindi og mannúðar-, friðar-, öryggis- og afvopnunarmál. Ljósmynd/NTB/Scanpix fyrir norsku konungshöllina

Árið 2005 er ég flutt aftur heim í utanríkisráðuneyti þar sem ég stýrði mannréttindastarfi ráðuneytisins til ársins 2010 og á þá eðlilega í miklum samskiptum við þær sendiskrifstofur sem vinna hvað mest að eflingu og verndun mannréttinda og eru fastanefndir Íslands í Genf, New York og Strasbourg, en ekki eingöngu. Ef ég er sérfræðingur í einhverju eru það mannréttindamál, þau eru mér afskaplega hugleikin og þarfnast stöðugrar vöktunar og ég hef verið svo heppin að í gegnum allan minn feril hef ég fengist við þennan málaflokk með einum eða öðrum hætti. En svo er það nú bara þannig að í fámennri en kröftugri utanríkisþjónustu eins og okkar, þurfa starfsmenn að vera svokallaðir „generalistar“, við verðum að geta fengist við nánast hvað sem er,“ segir Ingibjörg og leggur ríka áherslu á orð sín.

Á ferli sínum hefur hún fengist við flesta flokka utanríkismála þótt ríkastan þátt skipi þar alþjóðastofnanir, mannréttindi og mannúðar-, friðar-, öryggis- og afvopnunarmál. „Og reyndar einnig viðskiptamál, en ég hef kannski minnst verið í þróunarmálum. Árið 2010 var ég flutt til Vínarborgar sem staðgengill sendiherra, sem þá var sendiráð og fastanefnd með sjö önnur umdæmislönd. Og þar eru líka stofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna ásamt Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Það var gríðarlega fín reynsla, ég var næst flutt frá Vínarborg til sendiráðs Íslands í London 2014 sem staðgengill sendiherra, sem var í raun fyrsta skiptið sem ég var í hefðbundnu tvíhliða sendiráði,“ segir sendiherrann af ævintýralegum starfsferli. Þarna urðu þó nokkur straumhvörf í atvinnulífi Ingibjargar.

Valkyrja sem fátt lætur sér fyrir brjósti brenna við fjallskil …
Valkyrja sem fátt lætur sér fyrir brjósti brenna við fjallskil í Þverárrétt. Ingibjörg segist sko ekki vera alltaf í kokteilboðum og keyrt hafi um þverbak í sendiráðinu í Ósló þegar skórinn kreppti í heimsfaraldrinum, sjaldan hafi verið meira að gera í aðstoð við íslenska ríkisborgara, alfa og ómega íslenskrar utanríkisþjónustu. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar ég var í London bauðst mér að taka við stöðu í forsætisráðuneytinu á Íslandi þannig að ég flyt þangað árið 2015 og tek við stöðu ráðgjafa forsætisráðherra í utanríkismálum og sinnti því starfi til ársins 2018. Þar er ég fyrst hjá Sigmundi Davíð, svo hjá Sigurði Inga, Bjarna Benediktssyni og Katrínu Jakobsdóttur, ég var reyndar styst hjá Katrínu þar sem ég var kölluð til starfa aftur í utanríkisráðuneytinu og var svo flutt í stöðu sendiherra Íslands í Ósló,“ segir Ingibjörg. „Tíminn í forsætisráðuneytinu var frábær reynsla, gríðarlega mikil vinna og mikið álag, en gefandi og skemmtilegt.“

Í ferðatösku frá barnæsku

Hver skyldi þá hafa verið aðdragandinn að flutningnum til Óslóar eftir alla þessa ráðgjöf í ráðuneytinu? „Ég var skipuð sendiherra 1. janúar 2016 þegar ég var við störf í forsætisráðuneytinu. Það er nú þannig að þegar maður ræður sig til starfa í utanríkisráðuneytinu undirgengst maður svokallaða flutningsskyldu, ég náttúrulega hef búið í ferðatösku frá sex ára aldri í heimavist þannig að ferðatöskulíf er lítið mál fyrir mig. Flutningsskyldan felur í sér að þú ert fluttur á milli starfsstöðva utanríkisþjónustunnar með nokkurra ára millibili og það var kominn tími á flutning á mér og ég var beðin um að taka við Ósló.

Hér tekur Ingibjörg á móti sendiherra Búlgaríu, Veru Shatilovu-Micarovu, í …
Hér tekur Ingibjörg á móti sendiherra Búlgaríu, Veru Shatilovu-Micarovu, í embættisbústaðnum á Bygdøy, þar sem henni var afhent afrit trúnaðarbréfs Shatilovu-Micarovu sem sendiherra Búlgaríu gagnvart Íslandi, með aðsetur í Ósló ásamt afriti afturköllunarbréfs forvera hennar. Sendiherrar 38 erlendra ríkja í Noregi hafa jafnframt fyrirsvar gagnvart Íslandi með aðsetur í Ósló. Ljósmynd/Aðsend

Sá sem ég tók við af hér í Ósló, Hermann Ingólfsson, var frá sama tíma fluttur til Brussel og gegnir stöðu fastafulltrúa Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu. Ég flutti í lok júlí 2019, en afhenti Noregskonungi trúnaðarbréfið mitt 29. ágúst og þegar maður hefur afhent þjóðhöfðingja trúnaðarbréf er maður fullkomlega kominn til starfa í hlutverk sendiherra. Þar til trúnaðarbréfið er afhent eru vissir hlutir sem maður má ekki gera í landinu,“ segir sendiherrann.

Um þetta ferli er ekki mikið rætt, hvernig skyldi afhending trúnaðarbréfs fara fram? „Maður mætir bara í sínu fínasta pússi með trúnaðarbréf sitt undirritað af forseta Íslands og afturköllunarbréf fyrir forverann, ég sumsé afhenti konungi  afturköllunarbréf fyrrnefnds Hermanns. Þessi tvö bréf afhenti ég konungi í hans höll hér í Ósló,“ segir Ingibjörg.

Ekki greint frá í smáatriðum

„Oft afhenda nokkrir sendiherrar á sama degi. Ég afhenti til dæmis með sendiherrum Kína, Mexíkó og Búlgaríu. Konungshirðin sækir sendiherrann og ekur í höllina þar sem maður ritar í gestabók, er raðað upp í rétta afhendingarröð, gengur inn til konungs þegar tíminn er kominn, afhendir trúnaðarbréfið og sest svo niður á einkafundi með konungi í svona tuttugu mínútur þar sem rædd eru ýmis mál sem sjaldnast er greint frá í smáatriðum,“ segir sendiherrann leyndardómsfullur. 

„Ég get samt sagt þér að við Haraldur konungur ræddum vinsamleg tengsl landanna, sameiginlega menningu og rætur og þennan mikla vinskap þjóðanna. Eigi maður að bera kveðjur gerir maður það. Ég færði kveðju frá forseta Íslands til konungs og reyndar einnig frá tveimur fyrrverandi forsetum Íslands, en þetta eru yfirleitt ekki samtöl, sem maður greinir frá í smáatriðum,“ segir Ingibjörg og blaðamaður skynjar góðlátlegt högg á handarbakið. Utanríkisþjónustan er og verður sveipuð vissri þoku.

Ingibjörg í sendiráðinu í Ósló, Íslandskortið á sínum stað. „Ég …
Ingibjörg í sendiráðinu í Ósló, Íslandskortið á sínum stað. „Ég finn alls staðar vinaþel og hlýju í garð Íslands og Íslendinga. Ég hef aðlagast mjög vel og hef átt alveg frábæran tíma hérna. Það eina sem ég hef saknað, fyrir utan að geta lítið séð fólkið mitt á Íslandi vegna veirunnar, er hve lítið ég hef getað ferðast um þetta fallega land sem Noregur er,“ segir sendiherrann. Ljósmynd/Aðsend

Talaði Ingibjörg þá bara norsku frá fyrsta degi? „Nei nei, ég talaði litla sem enga norsku þegar ég kom hingað, ég var bara með dönskuna mína,“ svarar sendiherrann og glottir við tönn eins og Skarphéðinn í brennunni, slíkt heyrist jafnvel gegnum spjall á símtalsmöguleika Messenger. „Mér finnst ég bara vera býsna fín í dag, kennarinn minn sagði mér, að best væri bara að hugsa fyrst á íslensku og færa hana svo yfir á norsku og það er ágætt ráð.“

Ekki alltaf í kokteilboðum

Senn líður að lokum viðtals, enda engin hemja að halda uppteknum sendiherrum íslenska lýðveldisins á snakki allan daginn. Um hvað skyldu helstu verkefni íslenska sendiráðsins í Ósló snúast?

„Já, það er reyndar góð spurning á þessum tímum,“ játar sendiherrann. „Meginhlutverkið er að sinna hagsmunagæslu Íslands og Íslendinga í Noregi og öðrum umdæmislöndum sendiráðsins, og í raun að framkvæma stefnu íslenskra stjórnvalda hverju sinni,“ segir Ingibjörg. „Almennt tökum við á móti fjölda Íslendinga í hverri viku, afgreiðum umsóknir um vegabréf, svörum fjölda fyrirspurna, staðfestum skjöl og fleira. En viðskipta- og menningartengsl Íslands og Noregs eru náttúrulega einnig mjög náin og við sinnum þeim þætti mjög mikið, en sem þú veist eru viðskipti milli Noregs og Íslands mikil og er Noregur eitt helsta viðskiptaland Íslands.“

Síðustu ár hafi til dæmis verið lögð þung áhersla á að styðja við útflutning íslenskrar vöru og þjónustu. „Og við höfum stutt dyggilega við það hér, erum til dæmis nýbúin að gefa út viðskiptaáætlun sendiráðsins, en mitt hlutverk er í raun mun víðtækara en það, ég er í tengslum við allt stjórnkerfið í Noregi. Hér í Ósló eru einnig 38 sendiráð með fyrirsvar gagnvart Íslandi og þau reka eðlilega oft erindi sín gegnum sendiráðið okkar hérna. Við erum til dæmis með fjögur önnur lönd fyrir utan Noreg í umdæminu okkar, Grikkland, Íran, Pakistan og Egyptaland, þau heyra undir sendiráð Íslands í Ósló og við sinnum erindisrekstri gagnvart þessum ríkjum,“ útskýrir sendiherrann.

Þessar lýsingar koma illa heim og saman við þá mynd sem margur hefur af utanríkisþjónustunni. Eruð þið sem sagt ekki bara alltaf í kokteilboðum? Sendiherrann hlær dátt. „Nei, ég er ekki alltaf í kokteilboðum, en ég skal segja þér annað, margir halda að á tímum Covid hafi öll starfsemi dottið niður. Ég tók við sendiherrastöðunni í Ósló sjö mánuðum áður en kórónufaraldurinn skall á. Í venjulegu árferði er borgaraþjónustuhlutverk sendiráðsins auðvitað ofboðslega viðamikið. Þar keyrði um þverbak á tímabili vegna útbreiðslu Covid,“ segir Ingibjörg frá.

Þakklát á hverjum degi

Fjöldi ríkja hafi þá lokað landamærum sínum og íslenskir ríkisborgarar verið strandaglópar víða. „Þetta hefur verið ótrúlegur tími og það er enn aukið álag hjá fámennri en frábærlega vel skipaðri sendiskrifstofu í Ósló. Starfsmenn sendiráðsins eru afskaplega samhentir, vinnusamir og duglegir og ég er þakklát á hverjum degi fyrir demantana sem ég vinn með í Ósló.

Störf í sendiráði eru að sögn Ingibjargar mjög fjölbreytt. „Þarna getur í raun allt undir sólinni komið upp, bara allt sem kemur upp í lífi fólks almennt. Hérna í Noregi eru 9.500 Íslendingar og við aðstoðum íslenska ríkisborgara innan þess ramma sem okkur er settur, það er okkar skylda, til þess erum við hér meðal annars. Íslendingar og Norðmenn eru líkar þjóðir og Íslendingum vegnar vel hér í Noregi, eru eftirsóttir í vinnu og vel liðnir,“ segir Ingibjörg.

Varla er þá hægt annað en að spyrja hvernig sendiherranum sjálfum líði í Noregi. „Rosalega illa,“ svarar hún og hlær hrossahlátri. „Nei, mér hefur bara liðið vel. Það er gott að vera Íslendingur í Noregi. Ég finn alls staðar vinaþel og hlýju í garð Íslands og Íslendinga. Ég hef aðlagast mjög vel og hef átt alveg frábæran tíma hérna. Það eina sem ég hef saknað, fyrir utan að geta lítið séð fólkið mitt á Íslandi vegna veirunnar, er hve lítið ég hef getað ferðast um þetta fallega land sem Noregur er, en þetta stendur allt til bóta,“ segir ærslabelgurinn, sjósundgarpurinn, spjótkastarinn, píanóleikarinn, prjónakonan og sendiherra Íslands í Noregi, Ingibjörg Davíðsdóttir, í lok hressandi samtals við Morgunblaðið. Hvort það sé jafn hressandi og sjósund skal reyndar ósagt látið, en hver og einn verður líklega bara að finna það út á eigin forsendum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert