Eldgosið staðið yfir í fimm mánuði

Í dag eru fimm mánuðir síðan að eldgos hófst í Geldingadal við Fagradalsfjall þann 19. mars. Þá hafði jarðskjálftahrina staðið yfir á Reykjanesi um þriggja vikna skeið. Samkvæmt Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands má skipta gosinu í fjögur tímabil.

Fyrsta tímabilið stóð í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu hraunrennsli.

Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana. Hraunrennsli var þá nokkuð breytilegt.

Þriðja tímabilið stóð í tvo og hálfan mánuð og endaði í lok júní. Hraunrennsli var lengst af nokkuð stöðugt og rann ýmist í Geldingadali, Meradali eða Nátthaga.

Fjórða tímabilið hófst síðan í lok júní. Það einkennist af kviðukenndri virkni. Hraunrennsli virðist hafa sveiflast töluvert á þessu tímabili.

Á vef stofnunarinnar segir að eldgosið sé um margt frábrugðið þeim gosum sem hafa orðið undanfarna áratugi, sem flest hafi átt upptök í kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þess réði mestu um stærð og lengd goss. Í Fagradalsfjalli virðist sem að aðstreymisæðin og eiginleikar hennar ráði mestu um kvikuflæðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka