Þótt rannsóknir fyrirtækjanna sem leituðu að olíu á Drekasvæðinu hafi ekki leitt til þess að vinnsla hæfist skiluðu þær miklum verðmætum fyrir Íslendinga. Vísindamenn hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) segja gögnin milljarða virði og muni nýtast þjóðinni í framtíðinni. Olíuleitarfyrirtækin fengu rannsóknarleyfi með skilyrðum um skil á gögnum til stjórnvalda hér á landi. Það er væntanlega það eina sem olíuleitin skilur eftir sig.
Misbrestur hefur verið á því að erlendir rannsóknarleiðangrar sem hingað koma fullnægi skilyrðum leyfa sinna og afhendi stjórnvöldum gögn um rannsóknir sínar. Stjórnvöld hafa falið ÍSOR að ganga eftir skilum á þessum gögnum.
Steinunn Hauksdóttir og Bjarni Richter, yfirverkefnisstjórar hjá ÍSOR, segja mikilvægt að skýr stefna og markmið séu við skipulagningu rannsókna á hafsbotni og leitað sé allra leiða til að afla þekkingar. Í undirbúningi er stórt alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem ÍSOR og Jarðvísindastofnun HÍ taka þátt í.
Ef verkefni Íslendinga ná í gegn á þeim vettvangi verður borað í hafsbotninn við landið á árinu 2024 og borkjarnar fást til rannsóknar. ÍSOR gegnir lykilhlutverki í rannsóknum á hafsbotninum við Ísland.