Óttast að starfsemin verði óbreytt

Starfsstöðvar Vöku hf.
Starfsstöðvar Vöku hf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ljóst er að starfsemi Vöku hf. getur ekki talist hreinleg atvinnustarfsemi, hefur í för með sér mengunarhættu og getur ekki fallist undir léttan iðnað. Starfsemin samræmist ekki skipulagi svæðisins,“ segir í bréfi sem 65 íbúar í Laugarneshverfi í Reykjavík hafa sent Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Bréfið hefur að geyma athugasemdir við tillögu að starfsleyfi fyrirtækisins sem var auglýst á dögunum. Frestur til athugasemda rann út á föstudag í síðustu viku og hefur Morgunblaðið óskað eftir að fá þær athugasemdir sem Heilbrigðiseftirlitinu bárust.

Íbúar í hverfinu hafa ítrekað gert athugasemdir við starfsemi Vöku við Héðinsgötu eins og komið hefur fram í fréttum Morgunblaðsins. Starfsleyfi fyrirtækisins var fellt úr gildi í júní en í lok júlí fékk það undanþágu fyrir hluta starfseminnar.

Langþreytt á þungaiðnaði

Nú hafa 65 íbúar í Laugarneshverfi tekið sig saman og gera alvarlegar athugasemdir við það að fyrirtækið fái að starfa áfram. „Starfsemi Vöku hf. byggist eftir sem áður á því að fyrirtækið taki á móti allt að átta þúsund tonnum af úr sér gengnum ökutækjum árlega. Það vekur umhugsun okkar að þrátt fyrir úrskurðinn sæki fyrirtækið um leyfi fyrir móttökustöð annars vegar en hins vegar fyrir úrvinnslu ökutækja (og bílapartasölu).

Ekki er ljóst hvernig má aðgreina móttökustöð og úrvinnslu ökutækja og enn fremur er undarlegt að umsókn fyrir úrvinnslu ökutækja sé sameinuð starfsleyfisumsókn um bílapartasölu. Hér virðist því sem um tilraun til að reka áfram óbreytta starfsemi sé að ræða með því að gefa heilbrigðiseftirlitinu og heilbrigðisnefnd kost á að synja leyfi um móttökustöð en heimila úrvinnslu ökutækja. Ekki er hægt að sjá hvernig hægt er að vinna við úrvinnslu bíla án þess að tekið sé á móti efninu á einn eða annan hátt,“ segir í bréfi íbúanna 65.

Íbúar í hverfinu höfðu áður sent heilbrigðiseftirlitinu ábendingu um að Vaka hefði brotið gegn skilyrðum undanþágu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hinn 5. ágúst. Í svari eftirlitsins er því hafnað að myndir sem íbúar sendu inn sýni að tekið sé á móti bílum til úrvinnslu á svæðinu. Vísað er til eftirlitsferðar frá 21. júlí þar sem öll starfsemi Vöku var skoðuð. Segir eftirlitið að þá hafi ekki farið fram vinna við móttöku eða úrvinnslu á bílum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert