Aðgengi að hleðslustöðvunum ekki brýnir hagsmunir

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Kærunefnd útboðsmála hafnaði beiðni Reykjavíkurborgar um frestun réttaráhrifa og úrskurðar um hleðslustöðvar ON í Reykjavík. Nefndin ógilti samning ON og Reykjavíkurborgar um rekstur stöðvanna snemma í sumar og þær hafa staðið ónothæfar síðan 25. júní.

Reykjavíkurborg hafði óskað eftir því að fresta réttaráhrifum úrskurðarins og halda stöðvunum þannig í virkni. Borgin hélt því fram að ef stöðvarnar stæðu straumlausar myndi skerða mjög verulega möguleika bíleigenda á því að hlaða bifreiðarnar sínar.

Sjá ekki vandræðaástand á sviði hleðslumála

Nefndin sagðist ekki geta fallist á það þar sem engin gögn lægju fyrir um að vandræðaástand ríkti á sviði hleðslumála eða að slíkt ástand hafi skapast eftir úrskurð nefndarinnar:

„Þá benda gögn einnig til að nýting hleðslustöðva þeirra sem samningurinn tók til hafi áður en óvirkni hans var lýst yfir verið langt undir því sem miðað er við til framtíðar. Samkvæmt því virðist hæpið að álykta að hagsmunir almennings að auknu aðgengi að hleðslustöðvum teljist brýnir í dag í skilningi 1. mgr. 117. gr. laga um opinber innkaup.“

Ákvörðunin vonbrigði

Reykjavíkurborg segir næstu skref til skoðunar en ekki væri ljóst á þessum tímapunkti hver þau væru.

ON lýsir yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun nefndarinnar: „Rétt eins og við sögðum í athugasemdum okkur til nefndarinnar þá hefur notkun þessara götuhleðslna aukist jafnt og þétt. Það er ekki síst efnaminna fólk, námsmenn, ungt barnafólk, fólk á leigumarkaði o.s.frv. sem treysta einna helst á þessar götuhleðslur.

Það að loka fyrirvaralaust þessum tengjum hefur mikil áhrif á þessa hópa. Við teljum enn fremur að með lokuninni sé verið að setja stein í veg orkuskipta sem verður stærri og stærri með hverjum deginum sem líður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert