Fleiri börn hafa verið að leggjast inn á spítala í Bandaríkjunum af völdum Delta afbrigðisins, en fyrri afbrigðum. Gögn ECDC og CDC sýna fram á að afbrigðið sé meira smitandi og ljóst er nú að þar eru börn engin undantekning.
Það hefur þó verið bent á að útbreiðsla veirunnar sé almennt meiri, sem getur haft áhrif á fjöldann. Einnig er rétt að hafa í huga að börn hafa lengst af ekki verið bólusett og fæst eru það enn í dag.
Ekki liggja þó fyrir upplýsingar um hlutfall veikra barna af smituðum, samanborið við fyrri bylgjur fyrri afbigða. Eru ályktanir um að Delta leggist þyngra á börn því helst dregnar af mati bandarískra barnalækna sem félagasamtök þeirra halda utan um.
Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) og félag barnalækna þar í landi fylgjast grannt með þróun faraldursins og áhrifum hans. Forsvarsmenn þessara stofnana meta það svo að fleiri börn séu að smitast af völdum Delta afbrigðisins en af völdum fyrri afbrigða og að fleiri börn séu að leggjast inn á spítala.
Í skýrslu sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC) má sjá sambærilegar ályktanir dregnar af tölum sambandsríkjanna, að Delta afbrigðið sé að smita fleiri börn en fyrri afbrigði veirunnar gerðu. Þar er ekki fjallað sérstaklega um spítalainnlagnir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur talað um það að Delta afbrigðið sé að „leggjast þyngra á börn en fyrri afbrigði.“ Byggir hann það einkum á gögnum frá CDC, félagi Bandarískra barnalækna og ECDC. Gögnin frá Bandaríkjunum sýna útbreiðslu veirunnar eftir vikum meðal barna. Með tilkomu Delta afbrigðisins má sjá uppsveiflu á vikulegum gröfum og súluritum sem taka mið af þessu.
Talsmenn Félags barnalækna í Bandaríkjunum segjast sjá fleiri innlagnir og að börnin séu veikari en áður.
Þórólfur segir að gögnin sem stofnanirnar birta séu ekki nægilega nákvæm til að hægt sé að ráðast í nákvæma greiningu út frá þeim. Forsvarsmenn stofnananna hafi þó betri aðgang að þessum gögnum og þeirra tilfinning sé sú að Delta kunni að leggjast þyngra á börn.
Upplýsingar sóttvarnayfirvalda hér á landi, sem og annarsstaðar, hafa komið frá þeim aðilum sem eru í framlínunni að kljást við heimsfaraldurinn, að sögn Þórólfs. Er hún þá ekki endilega í formi hreinnar tölfræði sem gæti staðið ein og sér í rannsóknargreinum enda erfitt að útiloka alla ytri þætti.