Foreldrum í Fossvogsskóla boðnir þrír kostir

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Foreldrum barna í Fossvogsskóla er boðið að velja á milli þriggja valkosta fyrir tilhögun skólastarfsins fyrstu vikur skólaársins. Könnun þess efnis var send út í dag og hafa foreldrar til hádegis á morgun til að svara henni, að því er greint frá í tilkynningu Reykjavíkuborgar.

„Tíu færanlegar kennslustofur verða settar upp á lóð skólans, og hafa einingarnar verið endurgerðar með aðstoð sérfræðinga. Settar hafa verið upp lagnir á lóðinni og unnið að undirbúningi flutnings svo að uppsetning á skólastofunum geti hafist um leið og öll leyfi verða samþykkt. Vonir um að hægt yrði að flýta fyrir skipulagsferli gengu því miður ekki eftir og því er ljóst að finna þarf aðra lausn fyrir skólastarfið hjá yngri bekkjunum fyrstu vikur skólaársins.

Til stóð að útbúa tengibyggingu sem skólastofur fyrir 2. og 3. bekk og að 4. bekkur myndi stunda nám í Berserkjasal á jarðhæð Víkingsheimilisins. Á fundi skólaráðs með fulltrúum Reykjavíkurborgar í gærkvöldi kom í ljós óánægja með það fyrirkomulag að koma allri kennslu fyrir á jarðhæð Víkingsheimilisins. Því var ákveðið að leita beint til foreldra barna í 2.-4. bekk og kanna vilja þeirra með könnun þar sem boðið er upp á þrjá kostir,“ segir í tilkynningunni.

Húsnæði Hjálpræðishersins einn valkostur

Fyrsti kostur er að halda sig við staðsetninguna í Fossvogsdalnum með því að 1. bekkur stundi nám í Útlandi, húsi Frístunda á skólalóð Fossvogsskóla en kennsla fyrir 2.-4. bekk verði á jarðhæð í Víkingsheimilinu.

Annar kostur er að 1. bekkur verði í Útlandi, 2. bekkur í Berserkjasalnum á jarðhæð Víkingsheimilisins og að 3. og 4. bekkur fari með rútu í Korpuskóla.

Þriðji kosturin er að 1. bekkur verði í Útlandi, en að skólastarfið í 2.-4. bekk fari fram í nýju húsnæði Hjálpræðihersins við Suðurlandsbraut. Börnin myndu þá fara með rútu þangað og til baka frá Fossvogsskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert