Hlý tunga sunnan úr höfum á eftir að teygja sig yfir Norðurlandið og Austurlandið í næstu viku og fer hitinn mest í 24 gráður í Ásbyrgi og 22 gráður á Akureyri á þriðjudag.
Þokkalega hlýtt verður á Norðurlandi í dag og á morgun en það hlýnar seinnipartinn á mánudaginn að sögn Birgis Arnar Höskuldssonar, veðurfræðings.
„Þetta er hlý tunga sem ætlar að teygja sig frá Spáni og hingað og ætti að vera hérna í tvo til þrjá daga,“ segir hann, eða frá mánudegi til miðvikudags.
Þá hlýnar allverulega á Austurlandi um hádegið á þriðjudag en þá er spáð 22 gráðum á Egilsstöðum og 23 gráðu hita á Seyðisfirði.
Höfuðborgarbúar fá ekki að njóta góðs af þessari hitabylgju en á mánudaginn er spáð um 15 til 16 gráðum og rigningu á mánudag til miðvikudags.