Mæla með hólfaskiptingu í leik- og grunnskólum

Með þessum aðgerðum er markmiðið að halda órofinni starfsemi og …
Með þessum aðgerðum er markmiðið að halda órofinni starfsemi og minnka líkur á því að stórir hópar þurfi að fara í sóttkví eða einangrun. Leiðbeiningarnar gilda til 1. október. Haraldur Jónasson / Hari

Ekki er mælt með því að fleiri en hundrað nemendur komi saman í hverju rými í grunnskólum, frístundamiðstöðvum, tónlistarskólum eða félagsmiðstöðvum. Heimilt er að víkja frá fjöldatakmörkunum í sameiginlegum rýmum ef starfsfólk notast við grímur og gætt er að persónubundnum sóttvörnum. 

Þetta kemur fram í leiðbeiningum Almannaverndarnefndar höfuðborgarsvæðisins, fyrir skóla- og frístundastarf á höfuðborgarsvæðinu. Nefndin vill hvetja til þess að notast verði við samræmt verklag í öllum sveitarfélögum. 

Með þessum aðgerðum er markmiðið að halda órofinni starfsemi og minnka líkur á því að stórir hópar þurfi að fara í sóttkví eða einangrun. Leiðbeiningarnar gilda til 1. október. 

Ef stjórnendur vilja gæta sóttvarna umfram reglugerð er þeim það heimilt. Þó aðeins að því marki að ráðstafanirnar takmarki skólastarf eins lítið og kostur er á. 

Eitt foreldri taki að sér að fylgja barni á fundi og viðburði

Börn á leikskólaaldri eru undanskilin fjölda- og nálægðartakmörkunum. Það er þó mælt með hólfaskiptingu á starfsemi leikskóla og að aðeins eitt foreldri fylgi barni á fundi eða aðra viðburði leikskólastarfsins. 

Í grunnskólum er einnig lagt til að einungis annað foreldrið fylgi börnum á hefðbundna fundi í skólanum. Þó er lagt til að slíkir fundir verði haldnir með fjarfundafyrirkomulagi eða í beinu streymi. 

Ekki grímuskylda í samskiptum við grunnskólabörn

Eins metra reglan gildir um starfsfólk grunnskóla en þeir sem ekki geta haldið slíkri fjarlægð ættu að bera grímu í samskiptum við annað starfsfólk. Grímuskyldan gildir þó ekki um samskipti við grunnskólabörn. 

Takmarka skal útlán eða afnot utanaðkomandi aðila af skólabyggingum eins og kostur er. 

Í tónlistarskólum verða nemendur á grunnskólaaldri undanþegnir grímuskyldu. Annað mun gilda um eldri nemendur og starfsfólk, sé ekki unnt að virða eins metra reglu.

Skrá um sætaskipan á viðburðum tónlistarskóla

Viðburðum tónlistarskóla skal streymt. Ef það er ekki mögulegt þá skal miða fjölda gesta við það að hægt sé að virða fjarlægðarreglur.

Þá verður einnig gerð krafa um grímuskyldu og skráningu gesta í númeruð sæti. Halda þarf skrá um sætaskipan þar sem fram koma nöfn, kennititölur og símanúmer gesta. Skráin skal geymd í tvær vikur frá viðburði og svo eytt að þeim tíma liðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert