Stefnt að stærstu úthlutun farnetstíðna

5G farsímamastur í Peking, Kína.
5G farsímamastur í Peking, Kína. AFP

Uppbygging 5G-fjarskiptakerfisins hefur gengið hratt að undanförnu og um mitt þetta ár náði útbreiðsla þess til um það bil helmings landsmanna. Unnið hefur verið í sumar að uppbyggingunni á ýmsum stöðum, m.a. á stærri sumarhúsasvæðum. Er nú stefnt að umfangsmestu úthlutun farnetstíðna sem fram hefur farið hér á landi í lok þessa árs eða í byrjun þess næsta að því er fram kemur í grænbók samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um fjarskipti.

Gagnrýnt er í umsögnum um grænbókina í samráðsgátt að lagningu ljósleiðara eða sambærilegrar tækni um landið er enn ólokið og eru um 13 þúsund heimili og fyrirtæki í þéttbýliskjörnum án ljósleiðaratenginga eða um 18% heimila og fyrirtækja. „Stjórnvöld og ráðgefandi stofnun geta ekki haldið áfram að skila auðu um hvernig á að fulltengja Ísland. Stór hópur heimila og fyrirtækja hefur lengi beðið svara,“ segir í umsögn Símans.

Í samstarfi við markaðsaðila

Samband íslenskra sveitarfélaga tekur í sama streng og hvetur til þess að flýtt sé eins og kostur er að ljúka háhraðanetsvæðingu um allt land. Reynsla síðustu 18 mánaða vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar sé sú að opinberir aðilar sem og fyrirtæki hafi stóreflt þjónustu í gegnum netið og íbúarnir verði að hafa jöfn tækifæri.

Síminn heldur því fram að eftirlitsaðilar hafi ekki komið með neinar tillögur eða lausnir í þessum efnum. Þvert á móti hafi stefna eftirlitsaðila frekar dregið úr hvata til fjárfestinga og þannig hægt á hugsanlegum verkefnum. Áríðandi sé að unnið verði að lausn í samstarfi við markaðsaðila, sem sé til þess fallin að búa til jákvæða hvata til fjárfestinga, og þannig dregið úr þörfinni fyrir íþyngjandi reglur eða fjárhagsleg inngrip með ríkisaðstoð.

Í umsögn Mílu segir að langstærsti hluti heimila sem ekki eru með ljósleiðara eigi í dag kost á 50 Mbps-nettengingu, sem teljist mjög góður hraði í flestum löndum Evrópu. Unnið sé áfram að uppbyggingu ljósleiðarakerfa á markaðslegum forsendum en hún sé kostnaðarsöm og muni taka einhver ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert