Unnið að nýju verklagi við komu til landsins

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að meðal tillagna sem eru til umfjöllunar í ríkisstjórn er breytt útfærsla á komu fólks til landsins um flugstöð Leifs Eiríkssonar. 

Hann segir stöðuna í heimsfaraldri Covid-19 hafa verið rædda á ríkisstjórnarfundi í dag sem og framtíðarhorfur og framtíðarsýn á sóttvarnaaðgerðir.

Sigurður Ingi segir til skoðunar sé að einfalda ferlið á flugvellinum, „vandamál í úrfærslu á biðröðum og þeirri staðreynd að fólk lokist ekki erlendis, það þarf að finna leiðir til þess,“ segir Sigurður Ingi.

Eins og greint var frá á mbl.is í dag eru nýjar reglur um sóttkví væntanlegar þar sem áhersla er lögð á að aðeins þeir sem hafa verið í nánu samneyti við smitaða einstaklinga fari í sóttkví. Af því getur leitt að foreldrar fari ekki sjálfkrafa í sóttkví þó að börn á heimilinu greinist með Covid-19. 

Sigurður Ingi hefur áður viðrað hugmyndir um að slaka á reglum um sóttkví og nefnt að skoða þurfi hvort að hætta eigi að skylda bólusetta í sóttkví þrátt fyrir að hafa verið útsettir fyrir smiti. 

Sigurður segir slíkar hugmyndir hafa verið ræddar ásamt því hvernig takmarka eigi hóp þeirra sem þurfa að fara í sóttkví enn frekar. 

Óþægilegt að endurnýja ekki umboð

Sigurður Ingi segir miður að ekki sé hægt að halda flokksþing Framsóknarflokksins nú síðar í ágúst. Um er að ræða þriðju frestun á flokksþingi Framsóknar sem nú hefur ekki verið haldið síðan árið 2018. 

Það segir hann bagalegt og spurður hvort að það komi forystunni ekki illa að geta ekki endurnýjað umboð sitt fyrir alþingiskosningar í haust segir hann það óþægilegt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert