Lyfjastofnun hefur samtals borist átta tilkynningar um grun um aukaverkun í kjölfar örvunarbólusetningar með bóluefninu Spikevax frá lyfjaframleiðandanum Moderna.
Þetta kemur fram í svari Lyfjastofnunar við skriflegri fyrirspurn mbl.is.
Lyfjastofnun hefur ekki borist tilkynning þar sem minnst á suð í eyrum en nokkrar slíkar ábendingar hafa borist mbl.is.
Í sama svari segir að suð í eyrum sé ekki þekkt aukaverkun af bóluefninu Spikevax en upplýsingar um allar þekktar aukaverkanir má lesa í fjórða kafla fylgiseðils lyfsins.
Lyfjastofnun hefur nú alls borist 2.931 tilkynning vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Þar af eru 184 alvarlegar.
Á grafinu hér að neðan má sjá yfirlit yfir tilkynningar sem borist hafa Lyfjastofnun vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19.