Breyttar reglur um sóttkví í skólum

Ákvörðun liggur fyrir um breytingu á reglum um sóttkví hjá leikskólum, grunnskólum, félags- og frístundamiðstöðvum. Breytingin tekur gildi á þriðjudaginn kemur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

Smitrakning mun miðast við sólarhringinn áður einkenni komu fram eða sólarhringinn fyrir sýnatöku, ef viðkomandi er einkennalaus. 

Við mat á því hvort þörf sé á sóttkví verður tekið mið af samverutímanum, nánd samskiptanna og tíðni þeirra.

Samvera styttri en fimmtán mínútur sleppur

Ef samveran var meiri en 15 mínútur í senn og nándin var meiri en tveir metrar við þann smitaða, er gerð krafa um sóttkví.

Þá er einnig litið til eðlis samskiptanna við hinn smitaða, hvort þau hafi verið í formi faðmlaga eða kossa til dæmis. Þá verður einnig gerð krafa um sóttkví ef samskiptin voru endurtekin, þó þau hafi varað skemur en fimmtán mínútur í senn. 

Ef um er að ræða langa dvöl í sama rými og hinn smitaði innandyra verður litið til þess hvort samskiptin hafi verið tíð, gæði loftræstingar og til sameiginlegra snertiflata.

Vinir, sætisfélagar og mögulega bekkjarfélagar

Ef nemandi í skóla greinist þá fara sætisfélagar viðkomandi í sóttkví, nemendur sem voru með honum í vinnuhóp eða vinir viðkomandi sem léku með honum utan skóla. 

Fyrir þennan hóp verður miðað við sóttkví og sýnatöku eftir sjö daga. 

Litakóðunarkerfið sem ráðuneytið ehfur gefið út.
Litakóðunarkerfið sem ráðuneytið ehfur gefið út.

Hraðpróf fyrir hóp í smitgát

Aðrir sem voru í takmarkaðri samskiptum við nemandann eru hvattir til að vera vakandi fyrir einkennum þótt þeir séu ekki skikkaðir í sóttkví. Þeir verða látnir taka hraðpróf daginn eftir að smit kemur upp og aftur að fjórum dögum liðnum. Á meðan mega þeir mæta í skólann, nema þeir greinist jákvæðir en þá fara þeir í hefðbundna sýnatöku.

Verður það skilgreint sem smitgát og tekur til einstaklinga sem voru í sama hólfi og sá smitaði, sömu stofu þrátt fyrir góða loftræstingu.  

Einkennavarúð

Einkennavarúð er svo hugtakið sem stuðst verður við og nær yfir þriðja hópinn sem minni líkur eru á að hafi smitast. Hér er átt við þá sem voru í litlum eða engum samskiptum við hinn smitaða, þá sem voru í sama hólfi og hann en ekki á sama tíma.

Fyrir þennan hóp verður ekki gerð krafa um sóttkví, sýnatöku eða hraðpróf. Fólk er þó beðið að vera vakandi fyrir einkennum. Ef einstaklingur í þessum hópi reynist smitaður fer í gang önnur smitrakning í kringum hann. 

Sömu viðmið gilda um kennara en stuðst er við litakóðunarkerfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert