Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi furðar sig á því að engar upplýsingar hafi borist um það hvað verði gert við Fossvogsskóla vegna mygluvandans, en þar til línur skýrast munu nemendur stunda nám í húsnæði Hjálpræðishersins.
Segir Valgerður í samtali við mbl.is að foreldrar barna í skólanum hafi velt því fyrir sér, þegar þeir eiga leið hjá, hvers vegna engar framkvæmdir séu hafnar við skólann. Raunar hafi engar upplýsingar borist um það hvað verði gert í mygluvandanum.
„Ég hef bara heyrt það, að það sé ekkert byrjað að vinna í húsnæðinu. Og eftir því sem það dregst um lengri tíma því lengur verða börnin um allan bæ,“ segir Valgerður.
Hvernig líst þér á að nemendur stundi nám í húsnæði Hjálpræðishersins?
„Það hefur verið svo ofboðslega mikill seinagangur á málinu. Skólinn er að byrja á mánudaginn, ég get ekki ímyndað mér álagið sem er á starfsfólkinu núna. Og það, að ekki hafi verið haft samráð við foreldrana um að fara í Víkingsheimilið [líkt og fyrst var ákveðið] – það er algjörlega fyrir neðan allar hellur,“ segir Valgerður og heldur áfram:
„Þetta er örugglega fínasta húsnæði og örugglega það besta í stöðunni núna, en þetta hefði átt að vera ákveðið fyrir löngu síðan, því við vissum strax í sumarbyrjun að þessir færanlegu skúrar [sem kennsla átti að fara fram í] myndu ekki vera komnir upp við skólann þegar skólinn byrjaði. Hvað er búið að vera að gera í allan þennan tíma?“ spyr Valgerður að lokum.