Lilja gagnrýnir borgaryfirvöld

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, segir ljóst að þurfi að …
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, segir ljóst að þurfi að gera betur gagnvart skólasamfélaginu í Fossvogi, en hún er í hópi foreldra nemenda við Fossvogsskóla. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst þetta bara óviðunandi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í Morgunblaðinu í dag um stöðuna sem foreldrar, nemendur og starfsfólk Fossvogsskóla standa nú frammi fyrir. Enn ríkir óvissa um tilhögun skólahalds á næstu vikum en kennsla á að hefjast á mánudaginn nk. samkvæmt stundatöflu.

„Það er alveg ljóst að það verður að gera betur gagnvart skólasamfélaginu hér í Fossvogi, bæði er varðar Fossvogsskóla og Kvistaborg,“ segir hún, en Lilja er í hópi foreldra nemenda við skólann. „Það er alveg með ólíkindum hvað þetta hefur tekið langan tíma og það er mjög miður fyrir börnin, foreldra og kennara. Það er alveg ljóst í mínum huga að það þarf að taka á svona málum af mikilli festu og hafa velferð barnanna í forgangi.“

Innt eftir því segir Lilja þörf á að fara í allsherjar úttekt á skólum landsins og bæta eftirlit með skólabyggingum. „Þegar svona mál koma upp þarf að taka á þeim með mikilli festu, auka eftirlitið og gæta þess að það sé verið að uppfylla þær reglugerðir sem um þau gilda.“

Óboðlegt sé hve langan tíma framkvæmdir á húsnæði Fossvogsskóla hafa tekið, að sögn Lilju. „Þetta vandamál var umfangsmeira en menn héldu í fyrstu og frágangurinn reyndist ekki vera eins og best verður á kosið og þess vegna hefur þetta tekið svona langan tíma,“ segir hún. „Það er þó börnunum ekki boðlegt því að tíminn líður svo hratt og hver dagur skiptir máli.“

Þá segir hún foreldra ansi hrædda um að lausnin á húsnæðisvanda skólans sé ekki tímabundin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert