Flestir starfsmenn og foreldrar nemenda í Fossvogsskóla sem tóku þátt í könnun Reykjavíkurborgar um tímabundin húsakynni 2. til 4. bekkjar völdu þriðja valkost sem felur í sér að kennsla fari fram í húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Í samræmi við niðurstöðuna mun skólastarf hefjast samkvæmt áætlun hjá öllum árgöngum Fossvogsskóla mánudagsmorguninn og munu börn í 2. til 4. bekk fara í rútu frá Fossvogsskóla klukkan 8.20, segir í tilkynningunni.
Í kjölfar myglu í húsnæði Fossvogsskóla hefur ríkt óvissa um skólahald og var foreldrum og starfsfólki í gær gefinn kostur á að velja milli þriggja valkosta fyrir tilhögun skólastarfsins fyrstu vikur skólaársins.
Aðeins var gefinn frestur til að svara könnuninni til hádegis í dag og völdu 70% foreldra og 90% starfsmanna „þriðja kostinn sem fyrsta valkost, en hann felur í sér að börnin munu fara með skólarútu í nýtt húsnæði Hjálpræðishersins. Borgaryfirvöld hafa tekið ákvörðun byggða á niðurstöðunum og munu árgangarnir hefja nám í húsnæði Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut 72 á mánudagsmorgun.“
Fyrsti kostur var að halda sig við staðsetninguna í Fossvogsdalnum með því að 1. bekkur stundi nám í Útlandi, húsi Frístunda á skólalóð Fossvogsskóla en kennsla fyrir 2.-4. bekk verði á jarðhæð í Víkingsheimilinu.
Annar kostur var að 1. bekkur verði í Útlandi, 2. bekkur í Berserkjasalnum á jarðhæð Víkingsheimilisins og að 3. og 4. bekkur fari með rútu í Korpuskóla.