Á undanförnum árum hefur Flugsvið rannsóknanefndar samgönguslysa (RNSA) orðið þess áskynja að óvenjumikið hafi orðið um flugslys og alvarleg flugatvik hjá atvinnuflugmönnum í einkaflugi.
Beinir RNSA því þeim tilmælum til atvinnumanna í einkaflugi að þeir hugi að flugöryggi og hviki hvergi frá notkun á gátlistum, fylgi verkferlum og faglegum vinnubrögðum.
Þetta kemur fram í lokaorðum skýrslu RNSA um flugslys á flugvellinum að Haukadalsmelum á Rangárvöllum, þar sem flugvél einkaflugmanns brotlenti eftir flugtak með þeim afleiðingum að flugmaðurinn lést, 64 ára að aldri.
Vélin fór í bratt klifur eftir flugtak og steyptist til jarðar þann 27. júlí 2019, þegar stóð til að halda flughátíð á flugvellinum á Haukadalsmelum á Rangárvöllum, að því er fram kemur í skýrslunni.
Samkvæmt vitnum lyftist vinstri vængur flugvélarinnar lítillega í flugtaksbruninu og vélin skrikaði til hægri. Tókst hún síðan á loft og klifraði mjög bratt og mikið afl virtist á hreyflinum, en áfallhorn flugvélarinnar hélt áfram að aukast uns hún virtist hanga á hreyflinum. Var það mat RNSA að flugmaðurinn hafi hvorki framkvæmt nægilega ítarlega fyrirflugsskoðun samkvæmt gátlista né hugað að því hvort stýripinni væri laus og réttur.
Flugmaðurinn var nýkominn úr flugi í annarri flugvél og læsti hann ekki stýrum þegar hann gekk frá þeirri flugvél, þar sem annar flugmaður hugðist fljúga þeirri flugvél strax í kjölfarið. Í skýrslunni kom fram að mögulegt væri að sú staðreynd hafi haft áhrif á að hann framkvæmdi ekki fyrirflugsskoðun á vélinni.
RNSA beinir því tilmælum til flugvélaeigenda flugvéla sem notaðar eru í almannaflugi á Íslandi að þeir yfirfari flugvélar sínar með tilliti til þess hvort að stýrislæsing sé um borð í flugvél þeirra og geri viðeigandi ráðstafanir ef sætisbelti eru notuð sem stýrislæsing.