Sorgin er hin hliðin á ástinni

„Ég hef svo margt að lifa fyrir og vera þakklátur …
„Ég hef svo margt að lifa fyrir og vera þakklátur fyrir; drengina okkar, fjölskyldu og vini, og þau forréttindi að hafa átt svona yndislega manneskju að lífsförunaut í tæpan aldarfjórðung. Ég horfi bjartsýnn fram á veginn,“ segir Ólafur Teitur Guðnason sem missti konu sína fyrir rúmum tveimur árum. mbl.is/Ásdís

Nöfn heimilisfólksins á heimili Ólafs Teits Guðnasonar í Vesturbænum eru grafin á litla álplötu við útidyrahurðina. Blaðamaður rýnir í nöfnin til að sjá hvort hann sé ekki örugglega á réttum stað. Platan er veðruð og máð en nöfnin þó enn nokkuð læsileg. Efsta nafnið af fjórum er fallegt og óvenjulegt: Engilbjört Auðunsdóttir. Hún býr því miður ekki lengur þarna því Engilbjört lést í blóma lífsins hinn 11. apríl 2019, á 47. aldursári. Engilbjört var hámenntuð glæsileg kona, móðir, eiginkona, dóttir og vinkona. Hún er sögð hafa verið með einstaklega dillandi hlátur.

Þessar hugsanir fljúga í gegnum huga blaðamanns sem hringir loks bjöllunni. Dyrnar opnast um leið og Ólafur býður glaðbeittur í bæinn. Hann er búinn að hita kaffi og við komum okkur þægilega fyrir í hlýlegri stofunni. Ólafur talar af ró og yfirvegun en líf hans og drengjanna hans tveggja gjörbreyttist fyrir rúmum tveimur árum.

Þrátt fyrir mikinn missi heldur lífið áfram og það hefur hjálpað Ólafi að skrifa minningarbókina Meyjarmissi sem nú er komin út. Þar skrifar hann um veikindin sem enda því miður með skelfingu, sorgina, missinn og hugleiðingar um lífið. Ólafur vill nú deila reynslu sinni og segir að mögulega gæti bók hans hjálpað öðrum sem standa í svipuðum sporum, en hún er ekki aðeins fyrir fólk sem hefur misst. Meyjarmissir er öllum holl lesning og hugleiðingar Ólafs um sorgina eru athyglisverðar því eins og hann nefnir réttilega kemst ekkert okkar í gegnum lífið áfallalaust.

Fallegust og björtust

Ólafur er prestssonur úr Miðfirði sem flutti sextán ára gamall í höfuðborgina til að fara í Versló og síðar Háskóla Íslands þar sem hann lagði stund á stjórnmálafræði. Hann var blaðamaður í áratug og síðar upplýsingafulltrúi álversins í Straumsvík en er nú aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Hann kynntist Engilbjörtu, sem einnig var á þeim tíma í stjórnmálafræði, þegar hann vantaði góðar glósur.

„Ég og vinur minn Gísli Marteinn vorum að fara að læra fyrir próf og vantaði glósur til að eiga séns á að ná prófinu. Gísli vissi um stelpu sem væri þekkt fyrir góðar glósur og við bönkuðum upp á hjá henni,“ segir Ólafur.

Engilbjört og Ólafur kynntust ung og störfuðu í nokkur ár …
Engilbjört og Ólafur kynntust ung og störfuðu í nokkur ár sem flugþjónar hjá Atlanta.

Ástin lét fljótlega á sér kræla því Ólafur gat ekki gleymt Engilbjörtu. 

Það leið ekki á löngu þar til þau voru orðin par. Fljótlega fóru þau að vinna sem flugþjónar í pílagrímsflugi í Sádi-Arabíu fyrir Atlanta.

„Við unnum þar í tvö, þrjú ár með hléum og náðum að safna okkur fyrir íbúð. Hún hélt svo áfram í fluginu en eftir að hún kláraði meistaranámið í viðskiptum fór hún að vinna við sitt fag, í endurskoðunar- og bókhaldsþjónustu. Hún var nýbúin að skipta um starf þegar hún veiktist og var nýbyrjuð að vinna á fjármálasviði Völku,“ segir Ólafur.

Þau hjón eignuðust tvo drengi, Guðna Þór 1999 og Kára Frey 2005, og lífið gekk sinn vanagang hjá Vesturbæjarfjölskyldunni.

Veira leggst á hjartað

Sjöundi mars 2019 er dagur sem líður Ólafi seint úr minni. Hann hafði unnið lengi fram eftir og sofnað á sófanum. Engilbjört vakti hann snemma morguns með þeim orðum að hann yrði að hringja á sjúkrabíl, hún væri líklega komin með það sama og síðast. Þar vísaði hún til veikinda tveimur árum áður en þá hafði hún fengið gollurshúsbólgu, bólgu í bandvef sem liggur utan um hjartað. Í það skiptið hafði hún lagst inn á spítala en náð sér á nokkrum vikum.

„Hún vakti mig og var mjög illa haldin og máttfarin. Þetta lýsti sér eins og síðast; allsherjar vanlíðan. Ég hringi á sjúkrabíl og við brunum á bráðamóttöku og þaðan fer hún inn á hjartadeildina. Ég varð ekki strax mjög órólegur því síðast hafði hún jafnað sig á þessu. Hún var send í hjartaþræðingu og ég sá hana ekkert meir fyrr en mörgum klukkutímum seinna, en ég frétti síðar að líkaminn hefði farið í lost í þræðingunni og hún var því komin á gjörgæslu. Ég heimsótti hana á gjörgæsluna og henni leið enn verr en um morguninn. Ég þurfti síðan að sinna yngri syni okkar Kára og fór því heim og gaf honum kvöldmat, en eldri sonurinn Guðni var þá í Brussel í skólaferðalagi með Versló. Ég lét hann vita að mamma hans væri á spítala en myndi örugglega jafna sig eins og hún hafði gert áður,“ segir Ólafur en hann skrifar síðar um þennan dag í bók sína.

Þegar ég settist svo í bílinn fyrir utan spítalann til að fara til Kára Freys brast ég í grát, svo illa leist mér á blikuna. Ég upplifði í fyrsta sinn að Engilbjört gæti verið í alvarlegri lífshættu. Eftir á að hyggja tók ég þarna út fyrstu sorgina yfir því að missa hana. Dauðinn gerði vart við sig í vitund minni og ég hugleiddi í fyrsta sinn að hún gæti dáið.

Ólafur fór beint aftur upp á spítalann eftir kvöldmatinn með Kára.

„Þarna um kvöldið var mér sagt að þetta væri að þróast í verri átt og hún þyrfti á aðgerð að halda sem myndi taka langan tíma,“ segir Ólafur, sem sendi strax leigubíl eftir Kára.

„Ég varð töluvert hræddur fyrir þessa aðgerð. Mér var sagt að greinst hefði í henni inflúensuveira sem hafði lagst á hjartað og orsakað hjartabólgu.“

Aðgerðin gekk vel en Engilbjörtu var haldið áfram sofandi. Daginn eftir var Ólafi sagt að staðan væri það alvarleg að flytja þyrfti Engilbjörtu í sjúkraflugi til Gautaborgar.

„Þar gæti hún átt möguleika á meiri inngripum en virkni hjartans var orðin skuggalega lítil. Niðurstaðan var sú að öruggast væri að flytja hana út og mögulega þyrfti hún á nýju hjarta að halda.“

Fjölskyldan á góðri stundu. Frá vinstri eru Ólafur, Guðni Þór, …
Fjölskyldan á góðri stundu. Frá vinstri eru Ólafur, Guðni Þór, Engilbjört og Kári Freyr.

Eins og hvirfilvindur

„Þetta gerðist allt rosalega hratt. Strax daginn eftir að hún veiktist panta ég flug til Gautaborgar fyrir mig og Kára. Þetta var eins og hvirfilvindur og ég stóð skyndilega frammi fyrir milljón spurningum og verkefnum,“ segir hann og segir þá feðga hafa flogið út morguninn eftir, en flogið hafði verið með Engilbjörtu strax þarna kvöldið áður í sjúkraflugvél frá Sahlgrenska spítalanum.

„Þegar hún lenti í Svíþjóð var hjartað hætt að slá. En með þessum kraftaverkabúnaði var henni haldið á lífi,“ segir Ólafur.

Við tóku erfiðar og tvísýnar vikur þar sem Engilbjörtu var haldið á lífi með vélum, en hjartað tók aldrei við sér. Sífellt var hún sett í langar og strangar aðgerðir þar sem reynt var að halda blóðflæði um líkamann og á endanum þurfti að opna brjóstholið og tengja hjarta- og lungnavél beint við æðar hjartans.

Ólafur segist fyrstu dagana í Svíþjóð hafa óttast mjög að Engilbjört myndi ekki lifa af.

„Það sem dró úr voninni var sú staðreynd að læknarnir voru mjög heiðarlegir með stöðuna og voru ekki með bjartsýni sem ekki var innistæða fyrir. Ég er þakklátur fyrir það. Hún var sett í margar aðgerðir og fyrir eina aðgerðina sagði læknirinn við okkur Kára að hún myndi mögulega ekki lifa aðgerðina af. Þetta var bara á öðrum eða þriðja degi í Svíþjóð,“ segir Ólafur.

„Kára varð mjög bilt við þessar fréttir og þarna var Guðni á leiðinni til okkar frá Brussel en ég sagði honum þetta ekki fyrr en hann kom til okkar. Ég þurfti svo að segja honum að hún væri í bráðri lífshættu.“

Búin með kraftaverkin

Eftir rúma viku á sjúkrahúsinu í Gautaborg tók Ólafur þá ákvörðun að senda strákana heim.

„Þeir höfðu verið töluverðan tíma frá skóla og þarna kom síðan í ljós að það væri miklu lengra í að hún myndi vakna til meðvitundar en ég hélt. Því fannst mér skynsamlegt að senda þá heim því hún væri hvort sem er sofandi. Svo myndi ég fá þá aftur út síðar þegar hún væri vöknuð.“

Ólafur lýsir þessu vel í bókinni og vissulega hefur hann efast um að ákvörðunin hafi verið rétt.

Ég kvaddi þá við öryggishlið en áður en þeir fóru upp rúllustigann hinum megin við hliðið hóaði ég í þá, lét þá snúa sér við og tók af þeim mynd. Mig langaði næstum að blása ferðina af. Auðvitað hefði ég gert það á stundinni hefði ég vitað að ef þeir færu heim sæju þeir mömmu sína ekki aftur.

Tvær bestu vinkonur Engilbjartar komu út og náðu að hitta hana vakandi sama kvöld og þær komu.

„Þær áttu mjög góða stund þetta kvöld. Við fórum svo aftur í heimsókn morguninn eftir og var hún þá sofandi og hafði ekki vaknað eftir nóttina. Það var engin panik í gangi en svo kemur læknir og honum líst ekki á það að hún hafi ekki vaknað. Hann sendir hana því í myndatöku. Þá urðum við öll óróleg því klukkan var orðin ellefu og hún ekki vöknuð. Við biðum því kvíðin eftir niðurstöðunni úr myndatökunni. Seinni part dags erum við kölluð aftur inn á spítalann og sáum strax að við myndum ekki fá góðar fréttir. Við fengum þær fréttir að í ljós hefði komið mikil heilablæðing og skaðinn væri óbætanlegur.“

Nú vorum við búin með kraftaverkin. Þessi möguleiki hafði legið í loftinu og nú þegar hann gerði vart við sig var ég tilbúinn að gefast upp. Ég hafði misst Engilbjörtu í huganum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Í bílnum fyrir utan Landspítalann fyrsta kvöldið. Einn heima í örvæntingu á öðrum degi. Með Guðna og Kára fyrstu dagana í Gautaborg þegar lífshættulega aðgerðin var gerð. Bæði þá og oftar hafði ég sett mig í þessi spor: „Ég er að missa hana.“ Ég hafði nánast lifað matröðina. Nú var hún orðin að veruleika.

Læknirinn hóf mál sitt varfærnislega: „Ég er hræddur um að ég hafi ekki góðar fréttir að færa.“
„Ég veit,“ hugsaði ég stjarfur.

Yfirþyrmandi samhugur

Við heimkomuna blasti við nýr veruleiki án Engilbjartar. Jarðarförin var fram undan og svo lífið sjálft. Þetta var erfiður tími en við nutum góðs af ótrúlega miklum stuðningi, bæði frá fjölskyldu og vinum og prestinum okkar, séra Öddu Steinu. Það var yfirþyrmandi samhugur allt í kringum okkur sem hjálpaði okkur ofboðslega mikið. Ég sá einhverja fegurð í þessu öllu saman, satt best að segja,“ segir Ólafur og segist hafa fengið blóm, matarsendingar og skilaboð frá ólíklegasta fólki sem þau höfðu kynnst einhvers staðar á lífsleiðinni, auk mikils stuðnings frá þeirra nánustu.

Hjónin Ólafur og Engilbjört áttu gott líf saman í 23 …
Hjónin Ólafur og Engilbjört áttu gott líf saman í 23 ár en myndin er tekin á tónleikum í Hörpu.

„Við vorum alveg umvafin. Í hvert einasta skipti sem ég gekk hér um hverfið hitti ég fólk sem faðmaði mig og sýndi mér samhug og velvild. Pabbi sagði í erfidrykkjunni að með svona margt gott fólk í kringum sig gæti maður ekki dottið. Það eru orð að sönnu,“ segir Ólafur og segist hafa hvatt fólk til þess að koma í heimsókn frekar en að hringja.

Skrifin voru eins konar ritúal

Talið víkur að minningarbókinni Meyjarmissi.

„Ég byrjaði á að taka saman myndir og birta á minningarvef. Ég þurfti að hafa eitthvert verkefni sem tengdist Engilbjörtu og halda minningu hennar á lofti. Kannski myndi það hjálpa vinum og fjölskyldu að rifja upp allar góðu stundirnar. Þetta var eins og jóga eða hugleiðsla. Þetta var einfalt en tímafrekt og veitti mér hugarró. Vissulega var þetta erfitt en líka ánægjulegt að rifja upp gamla og góða tíma,“ segir Ólafur.

„Það sem var erfiðast var að fara í gegnum fötin hennar, en ég snerti þau ekki í heilt ár. Það er mjög misjafnt hvað fólk bíður lengi með svona hluti og kannski er ekkert eitt rétt. En þetta voru rosalega þung skref að taka því mér leið eins og ég væri að gefa yfirlýsingu um að hún væri ekki velkomin aftur; eins og ég væri að henda henni út. Þetta var eiginlega það erfiðasta við allt ferlið; að setja þennan punkt aftan við allt saman.“

Í kjölfar þess að fara í gegnum myndir og minningar ákvað Ólafur að taka saman frásögnina.

„Í fyrsta lagi vildi ég skrásetja þetta betur fyrir sjálfan mig. Í öðru lagi upplýsa fjölskyldu og vini um hvað gerðist raunverulega í Svíþjóð. Í þriðja lagi langaði mig að setja á blað þessar hugleiðingar um sorgarferlið. Það var mér uppgötvun að ferlið er ekki það sama hjá öllum, heldur ólíkt. Mig langaði að koma því á framfæri,“ segir Ólafur og segist hafa áttað sig á því síðar að skrifin hafi hjálpað honum við úrvinnslu sorgarinnar.

Ólafur birti alla bókina á síðunni engilbjort.is sem er opin öllum. Nú hefur hann gefið út bókina á prenti og fæst hún í Eymundsson og á Amazon.

Sorgin verður alltaf með mér

Nú eru liðin rúm tvö ár. Ertu kominn yfir það versta eða er hægt að tala um það?

 „Það er erfitt að segja til um það. Ég held í þessar minningar. Ég er ennþá með giftingarhringinn. Ég er hvorki bitur né reiður. Ég hef svo margt að lifa fyrir og vera þakklátur fyrir; drengina okkar, fjölskyldu og vini, og þau forréttindi að hafa átt svona yndislega manneskju að lífsförunaut í tæpan aldarfjórðung. Ég horfi bjartsýnn fram á veginn,“ segir Ólafur.

„Þessi reynsla hefur fært mig nær öðru fólki. Velvild fólks stendur upp úr. Við erum eftir allt saman í sama báti.“

„Það sem var erfiðast var að fara í gegn um …
„Það sem var erfiðast var að fara í gegn um fötin hennar, en ég snerti þau ekki í heilt ár. Það er mjög misjafnt hvað fólk bíður lengi með svona hluti og kannski er ekkert eitt rétt,“ segir Ólafur Teitur. mbl.is/Ásdís

Það er kominn tími til að kveðja. Ólafur hefur vissulega lært margt og mikið síðustu árin um sorgina.

„Manni má líða illa en manni má líka líða vel. Mér líður vel þótt sorgin verði alltaf með mér. Henni lýkur ekkert og hún getur verið falleg líka. Þótt það sé mótsagnakennt þá er einhver fegurð í sorginni. Hún er hin hliðin á ástinni; við höfum ekki annað án hins.“

Ítarlegt viðtal við Ólaf Teit er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert