Tveir menn veittust að leigubílstjóra

Tveir urðu ósáttir er leigubílstjóri neitaði þeim um far.
Tveir urðu ósáttir er leigubílstjóri neitaði þeim um far. mbl.is/Jim Smart

Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt og sinnti lögreglan meðal annars 14 tilkynningum um samkvæmishávaða frá miðnætti.

Tuttugu mínútur yfir tíu í gærkvöldi var beðið um aðstoð lögreglu þegar tveir menn veittust að leigubílstjóra eftir að hann neitaði þeim um far, þeir komu sér svo undan áður en lögregla kom á vettvang. Lögregla hafði haft afskipti af öðrum mannanna stuttu áður, sökum ástands. Hann var handtekinn seinna um nóttina og gistir nú í fangaklefa, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Þá var ökumaður stöðvaður við akstur grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna rúmlega ellefu í gærkvöldi. Bifreiðin reyndist einnig vera ótryggð. Var viðkomandi færður á lögreglustöð og laus að sýnatöku lokinni. Annar ökumaður var stöðvaður fyrir sama brot um korter fyrir miðnætti og færður í sýnatöku.

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um líkamsárás í hverfi 170 klukkan eitt og var þolandi fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar.

Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í miðbænum rúmlega hálftvö í nótt eftir að hafa veist að manni með golfkylfu. Þá fundust einnig fíkniefni á honum og var hann vistaður í fangaklefa.

Í miðbæ Reykjavíkur skömmu síðar var einn handtekinn eftir að hafa hoppað á þaki tveggja bifreiða og valdið skemmdum. Viðkomandi var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangaklefa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert