Vilja að farið verði varlega í bólusetningu barna

Bólusetning barna er hafin, en tveir hjartalæknar leggja til að …
Bólusetning barna er hafin, en tveir hjartalæknar leggja til að farið verður varlega í bólusetningu þessa hóðs gegn kórónuveirunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Heilbrigð börn án alvarlegra undirliggjandi sjúkdóma eru í afar lítilli áhættu á að veikjast alvarlega í kjölfar kórónuveirusýkinga,“ skrifa hjartalæknarnir Sigfús Örvar Gizurarson og Kristján Guðmundsson í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Leggja þeir til að farið verði varlega í fulla bólusetningu barna.

Vekja þeir athygli á að ungmenni hér á landi hafa greinst með hjartavöðvabólgu og bólgu í gollurshúsi eftir bólusetningar. Einkenni þessa eru væg en „slíkir sjúkdómar geta valdið varanlegum skaða á hjartavöðvann og áhrifin koma oft ekki fram til fulls fyrr en mörgum árum síðar. [...] Einnig sýna gögn að drengir og ungir karlmenn séu í sérstaklega mikilli áhættu fyrir þessum fylgikvilla.“

"Við leggjum til að farið sé varlega í fulla bólusetningu hjá börnum. Það er afar mikilvægt að foreldrar og einstaklingar gefi upplýst samþykki og fái viðhlítandi upplýsingar varðandi ávinning og hættu af bóluefnum. Þá ber að gæta þess að upplýsingar séu aðlagaðar þessum aldurshóp og ekki sé eingöngu stuðst við gagnsemi í fullorðnum,“ skrifa þeir.

Skora á sóttvarnayfirvöld

Taka læknarnir tveir sérstaklega fram að með greininni sé ekki á „neinn hátt hallað á ávinning af fullri bólusetningu hjá fullorðnum sem hafa ekki fyrri sögu um kórónuveirusmit. Þar er ávinningurinn langt umfram áhættu, en þar eins og við aðrar meðferðir ber að gæta þess að fullnægjandi upplýsts samþykkis sé aflað.“

Sigfús Örvar og Kristján skora einnig á sóttvarnaryfirvöld að gefa ekki fleiri skammta af bóluefnum en nauðsynlegt er. „Ungmenni sem fengu Janssen-bóluefni hafa verið hvött til að fá örvunarskammt af öðru bóluefni. Þetta er að okkar mati hæpið þar sem ávinningur hjá þessum hóp er mjög lítill, og hætta á fylgikvillum er til staðar og getur vegið á móti litlum ávinningi.“

Grein læknanna má lesa í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka