„Mér finnst eðlilegt að fólk hafi eins mikla innsýn í stjórnsýsluna og unnt er,“ segir Stefán Ómar Jónsson, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, í Morgunblaðinu í dag.
Stefán hefur lagt fram erindi í bæjarstjórn þar sem farið er fram á að bæjarstjórinn í Mosfellsbæ birti reglulega dagbók sína á netinu. Þar eigi bæjarbúar að geta fylgst með því hver dagleg verkefni bæjarstjórans eru. Erindi Stefáns var vísað til forstöðumanns þjónustu- og samskiptadeildar til umsagnar fyrr í sumar. Í vikunni var umræðu um téða umsögn frestað í bæjarráði vegna tímaskorts.
Stefán segir að hugmyndin sé sótt til ráðherra í ríkisstjórninni auk þess sem Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, greini reglulega frá helstu verkefnum sínum með þessum hætti, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.