„Láttu drauma þína rætast“

Agata Erna segir að dans sé það skemmtlegasta sem hún …
Agata Erna segir að dans sé það skemmtlegasta sem hún gerir.

Agata Erna Jack segir að sér líði mjög vel og sé stolt af því að vera orðin sigurvegari í sínum flokki á heimsmeistaramóti í dansi í dansi en hún hlaut fyrsta sætið í pro-am-samkvæmisdansi á Special Olympics sem haldnir voru í Austurríki nú á dögunum. 

Til þessa hefur dans aðeins verið sýningaratriði á leikunum en í ár var í fyrsta skipti keppt í dansi. Var Agata því með fyrstu keppendunum og jafnframt fyrsti sigurvegarinn. 

Það sem stóð upp úr í ferðinni var að vera uppi á sviði með 700 áhorfendur fyrir framan sig, og dansa, að sögn Agötu. Hún viðurkennir þó að það hafi líka verið stressandi.

Skemmtilegasta sem hún gerir er að dansa

Hún segir að mótið hafi verið mjög skemmtilegt en því hafi líka fylgt álag. „Þetta var svakalega mikil vinna, ég þurfti að vakna mjög snemma.“

Undirbúningurinn fyrir mótið var ekki síðri vinna; hún fór á fjölmargar æfingar en þótti mjög gaman á æfingunum. Agata segir að dans sé það skemmtilegasta sem hún gerir og hún sé ekki nærri hætt. 

Agata keppti í greininni pro-am sem virkar þannig að keppendur dansa við kennarana sína en aðeins keppandinn sjálfur er metinn til einkunnar. Agötu langar ekkert sérstaklega að prófa aðrar greinar því þessi aðferð sé svo skemmtileg. 

Hún dansaði með Lilju Rut Þórarinsdóttur, danskennari hjá Hvönn. „Það er mjög gott að dansa með Lilju en hún kenndi mér líka þegar ég var lítil.“

Agata er með Dan­dy Wal­ker-heil­kenni en hefur æft dans frá fjögurra ára aldri hjá dansskólanum Hvönn. Þar eru kennarar sem eru vanir að vinna með börnum með mismunandi stuðningsþarfir.

Hér eru þær Agata og Lilja á dansmóti í mars.
Hér eru þær Agata og Lilja á dansmóti í mars.

Þakklát fyrir kveðjurnar

Agata segist ekki hafa kynnst mörgum úti enda voru keppendurnir frá öllum heimshornum og hún skildi ekki tungumálin sem þeir töluðu.

Það kom þó ekki að sök því hún var í góðum hópi með foreldrum sínum, danskennurum og formanni DSÍ. Agata er þakklát fyrir allar kveðjurnar og hamingjuóskirnar sem hún hefur fengið frá fólki sem fylgdist með leikunum. 

Hennar skilaboð til þeirra sem eru í sömu sporum og hún og langar að ná langt eru einfaldlega: „Láttu drauma þína rætast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert