Við elskum Ísland!

Útlendingar streyma til landsins nú þrátt fyrir heimsfaraldur.
Útlendingar streyma til landsins nú þrátt fyrir heimsfaraldur. mbl.is/Ásdís

Ferðamenn eru byrjaðir að streyma til landsins þótt fjöldinn sé mun minni en fyrir kórónuveiru. Blaðamaður hitti á Skólavörðuholti nokkra hressa ferðamenn sem allir elskuðu Ísland.

Hissa að fá góðan mat

„Við erum hér í átta manna hóp og allir eru hér í fyrsta sinn fyrir utan mig, en ég er fararstjórinn og hef komið einu sinni áður, í maí á þessu ári,“ segir Susong og upplýsir blaðamann um að ferðalangarnir búi allir í Bandaríkjunum en séu ættaðir frá Suður-Kóreu.
„Við erum búin að vera í níu daga hér og fórum allan hringinn. Í dag er frjáls dagur og allir að labba í bænum. Það var algjörlega frábært að fara hringinn og mjög fallegt. Allir voru í skýjunum og ég ætla sko að koma aftur hingað með fleira fólk. Íslendingum finnst kalt hér en það er alls ekki kalt, það er frábært veður,“ segir Susong.

Hópurinn stillti sér upp á Skólavörðuholtinu og er Susong hvítklædd …
Hópurinn stillti sér upp á Skólavörðuholtinu og er Susong hvítklædd fremst.

„Við höfum fengið marga sólardaga en hér er auðvitað allra veðra von en við erum við öllu búin, en það hefur verið fallegt veður. Ég held að suðurströndin sé uppáhaldssvæðið mitt og Gullfoss rosalega fallegur,“ segir Susong.

„Við elskum allt hér, matinn og menninguna,“ segir hún og segir þorsk vera í sérstöku uppáhaldi þegar kemur að mat.

„Svo er plokkfiskurinn æði og lambið svo ferskt. Allir voru svo hissa að fá svona góðan mat.“

Tónlistarmyndbönd kveiktu áhugann

„Við erum hér saman nokkrir vinir, tveir frá Dallas í Texas og einn frá San Diego. Það hefur verið draumur minn alla ævi að koma hingað og sjá landslagið og lífið hér,“ segir Luigi.

„Við komum hingað fyrir helgi og höfum gengið á regnbogagötunni og vorum nú að koma úr skipulögðum matartúr. Við fengum fisk en fannst hann ekki góður. Lambið var fínt og pulsurnar voru góðar,“ segir Luigi sem segist ekki viss um hvort hann leggi í að smakka hákarl.
Vinirnir ætla að vera á Íslandi í viku í viðbót, en Íslandsferðin er sú fyrsta hjá þeim og eru þeir alsælir.

„Hitinn núna í Dallas er vel yfir fjörtíu stigum. Þannig að hitastigið hér nær ekki helmingnum af því. Það er frábært,“ segir Don.

Vinirnir Luigi, Kenny og Don sem eru ánægðir að losna …
Vinirnir Luigi, Kenny og Don sem eru ánægðir að losna úr hitanum í Texas.

Félagarnir hafa leigt bíl og ætla að halda út á land eftir nokkra daga í borginni.

 „Við ætlum svo sannarlega að sjá eldgosið. Við ætlum Gullna hringinn og svo ætlum við að keyra meðfram suðurströndinni, framhjá Hellu og að Vík. Og við hlökkum mikið til að sjá suðurströndina. Ég hef séð mikið af tónlistarmyndböndum sem voru tekin á þeim slóðum, en tónlistaráhugi minn er kannski ástæða þess að ég kom hingað. Ég er alinn upp með tónlist Bjarkar og Sigur Rósar,“ segir Luigi.

Töskulausar en alsælar

Mæðgurnar Irene og hin tólf ára gamla Iskra eru frá Króatíu og hafa verið á landinu í tvo daga. Fjölskyldufaðirinn er með í för en hafði brugðið sér frá.

„Við ætlum að vera í Reykjavík þar til á morgun en þá tökum við bíl og keyrum út á land. Reyndar þurfum við að bíða eftir töskunum, en farangurinn skilaði sér ekki þannig að ég þurfti að kaupa nokkrar flíkur,“ segir Irene og hlær.
„Mér skilst að við fáum töskurnar í dag,“ segir hún.

Iskra og Irene frá Króatíu eru sælar með veðrið.
Iskra og Irene frá Króatíu eru sælar með veðrið.

Íslandsferðin er fyrsta ferð þeirra til Íslands og eru þær alsælar með veðrið.

„Það er frekar kalt hér en heima er núna 35 stiga hiti þannig að þetta er fínt. Það er allt of heitt núna í Króatíu,“ segir Irene.
„Við hlökkuðum mikið til að koma af því að við erum vön að ferðast mikið, en þetta er fyrsta ferðin okkar í næstum tvö ár. Við ætlum að keyra meðfram suðurströndinni að Jökulsárlóni, en fyrst Gullna hringinn,“ segir Irene og segir þau vera að njóta þess að smakka íslenska matinn.

Gleymdi sólarvörn!

Radka og Zdenek eru par frá Tékklandi og hafa þau verið í tvær vikur á landinu.
„Þetta hefur verið frábær ferð en við förum heim í dag. Við keyrðum um allt land í átta daga og fórum meðal annars á Vestfirði. Við gengum mikið, bæði styttri og lengri gönguferðir. Við gengum til að mynda Laugaveginn,“ segir Radka.

„Við vorum fjóra daga að ganga Laugaveginn og vorum með allt dótið okkar á bakinu og sváfum í tjaldi. Við erum vant göngufólk en þar sem við erum að eldast var þetta alveg erfitt,“ segir Radka og hlær.

Radka og Zdenek gengu Laugaveginn og sváfu í tjaldi.
Radka og Zdenek gengu Laugaveginn og sváfu í tjaldi.

„Við höfum ferðast aðeins þrátt fyrir Covid, en þetta er fyrsta ferð okkar til Íslands. Við höfum ekki getað komið áður þar sem við erum ekki nógu rík. Hér er allt mjög dýrt fyrir okkur. Nú erum við nógu rík til að koma og sofa hér í tjaldi,“ segir hún og hlær.

„Það hefur ekki verið kalt; ég held að við séum heppin. Sérðu andlitið á mér, ég held að ég sé sólbrennd. Ég kom með allt nema sólarvörn til Íslands! Við höfum fengið sól alla daga nema í dag,“ segir hún.

„Við leituðum daglega að heitum hverum. Það var mitt plan,“ segir Zdenek og kona hans Radka hlær.

„Við þurfum að koma aftur því við náðum ekki að sjá Austfirði,“ segir hún.

Eftir tvö ár viljum við fara í heimsreisu og þá komum við aftur, ef það verður ekki Covid,“ segir Zdenek.

Veðrið er frábært!

Við erum að ferðast saman fjölskyldan, þrjár kynslóðir. Við erum frá Seattle í Bandaríkjunum og höfum verið á Íslandi núna í fimm tíma,“ segir Cassey og skellihlær.

„Við hjónin erum hér reyndar í annað sinn og nú vildum við koma með dóttur okkar og barnabörnum,“ skýtur Pam inn í.

„Við vorum ekkert smeyk að koma vegna Covid, við erum að koma frá stað þar sem ástandið hefur verið mjög slæmt um langa hríð. Okkur líður eins og við séum mjög örugg hér með allar reglurnar um að fara í próf og sýna bólusetningarvottorð,“ segir Cassey.

„Svo er hér svo mikið hægt að gera utandyra og mikið pláss,“ segir Pam, en fjölskyldan er að fara í sína fyrstu utanlandsferð eftir að faraldurinn skall á.

Emma, Cypress, Cassey, Pam og Jan ætla að njóta lífsins …
Emma, Cypress, Cassey, Pam og Jan ætla að njóta lífsins á Íslandi.

„Við ætlum að vera hér í fimm daga, fara gullna hringinn og fleira,“ segir Cassey.

„Já, við ætlum í tvo þjóðgarða, í þennan með ísjakana og svo í þennan með sprunguna,“ segir afinn Jan og blaðamaður skýtur inn í orðum eins og Jökulsárlón og Þingvellir og hitti þar naglann á höfuðið.

Þar sem þið hafið bara verið hér í fimm tíma, get ég varla spurt hvernig ykkur finnist Ísland, eða hvað?

„Jú, þú getur alveg spurt! Við elskum Ísland. Það er ekki annað hægt,“ segir Pam.

Kem pottþétt aftur

„Hvernig veistu að ég er útlendingur? Er ég svona týnd á svipinn?“ spyr Dina og hlær.
Hún er frá Seattle og kom í hóp sem fer heim á morgun, en hún hyggst ferðast meira um landið með öldruðum foreldrum sínum.

„Við ætlum að leigja bíl og fara í styttri ferðir út frá Reykjavík en ég hef nú verið hér í um viku. Ég er búin að fara Gullna hringinn, á Snæfellsnes og eitthvað af suðurströndinni. Við fórum líka að sjá Barnafoss. Nú ætlum við að fara að skoða meira sjálf á bílnum, bæði fossa og jökla,“ segir Dina sem er hér í fyrsta skiptið.

Dina var með landakortið við höndina og myndavélina tilbúna.
Dina var með landakortið við höndina og myndavélina tilbúna.

„Ísland var aldrei á planinu hjá mér. Svo var það ein vinkona mín sem fór hingað og sagði mér frá landinu. Svo poppaði upp þessi hópferð eldra fólks og foreldrar mínir vildu fara þannig að við skelltum okkur. Ég vissi í raun ekki mikið um Ísland. Ég veit að þið viljið ferðamenn, en ég vildi óska að þeir væru færri!“

Færri? Þú hefðir átt að sjá fjöldann hér fyrir Covid!

Já, var það kannski verra? Ég er þá bara heppin að vera hér núna. Ég kem alveg pottþétt aftur. Það er svo margt að sjá.“

Nánar er rætt við erlendu ferðamennina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert