Búið er að skima alla sjúklinga og starfsmenn á Landakoti, bæði um helgina og í dag og hafa öll sýni reynst neikvæð fyrir Covid-19.
Greint var frá því fyrr í dag að einn starfsmaður á Landakoti hafi greinst með Covid-19 um helgina.
Hildur Helgadóttir, verkefnastjóri hjá farsóttanefnd Landspítala, segir yfirgnæfandi meirihluta starfsmanna og alla sjúklinga á Landakoti vera fullbólusetta. „Meira að segja voru nokkrir sjúklingar nýbúnir að fá örvunarbólusetningu,“ segir Hildur.
Hildur segir ýmsar ráðstafanir vera líklega skýringu á að ólíklegt sé að smitið hafi breiðst út innan Landakots; víðtæk bólusetning, grímuskylda innan stofnunarinnar og góðar sóttvarnir. Hún segir sömuleiðis mikinn lærdóm hafa verið dreginn af stóra hópsmitinu sem kom upp á Landakoti í október í fyrra, þar sem sautján manns létust úr Covid-19.
„Það hafa komið upp smit síðan en við höfum lært að ná fljótt og vel utan um það,“ segir Hildur.
Hún segir að sú deild sem um ræðir núna sé nýuppgerð með góðri loftræstingu og mikið betri aðstöðu heldur en var þegar hópsmitið kom upp, fleiri einbýli og salerni til að mynda.
„Svo höfum við verið að prófa tæki sem hreinsar loftið á Landakoti, það hefur verið ágætisárangur af því.“
Á Landakoti eru fimm deildir, fjórar starfandi núna, sem hafa ólík hlutverk. Hildur segir enga sjúklinga á Landakoti finna fyrir einkennum Covid-19 sem stendur.