Eiga eina vinnustöðvun inni

Arnar Hjálmsson segir viðræður við Isavia hjá ríkissáttasemjara hafa skilað …
Arnar Hjálmsson segir viðræður við Isavia hjá ríkissáttasemjara hafa skilað litlum árangri. Ljósmynd/Samsett

Félag íslenskra flugumferðarstjóra fundar á ný í dag með Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Isavia. 

Arnar Hjálmsson, formaður félagsins, segir í samtali við mbl.is að viðræðurnar hafi þokast lítið áfram og að félagið eigi enn inni eina samþykkta vinnustöðvun.

Tillaga um sex sjálfstæðar og tímasettar vinnustöðvanir var samþykkt með miklum meirihluta þann 9. ágúst en ekki hefur komið til þess að boða þær og hafa því fimm af þeim brunnið inni.

Boða þarf til vinnustöðvana með viku fyrirvara og var síðasta vinnustöðvunin sem samþykkt var á þriðjudaginn í næstu viku. Félagið hefur því daginn til að boða til stöðvunar, kjósi fólk það. 

Arnar treystir sér ekki til að fullyrða um hvort óþreyja sé að aukast og hvort líklegt sé að til vinnustöðvunar verði boðað. „Það er allt undir í dag og mikið undir,“ segir Arnar. 

Hann segir fundinn með ríkissáttarsemjara og SA í gær hafa verið ákveðin vonbrigði „miðað við hvar við héldum að við værum á þriðjudagskvöldið þegar við skildum við síðast. En við skulum sjá hvað dagurinn í dag ber í skauti sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka