FA efast um lögmæti á banni við sjálfsprófum

Covid-próf eru nú einungis leyfileg undir eftirliti og á ábyrgð …
Covid-próf eru nú einungis leyfileg undir eftirliti og á ábyrgð rannsóknarstofu með starfsleyfi. AFP

Félag atvinnurekenda (FA) dregur í efa að stoð sé í sóttvarnalögum fyrir því að banna eða takmarka sölu og notkun á skyndigreiningarprófum eða sjálfsprófum vegna Covid-19-veirunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar kemur fram að félagið hafi sent heilbrigðisráðuneytinu erindi og óskað eftir svörum um afstöðu ráðuneytisins til lögmætis sölu og notkunar sjálfsprófanna.

Prófin eru nú einungis leyfileg undir eftirliti og á ábyrgð rannsóknarstofu með starfsleyfi.

„Í ljósi þessa er ljóst að bann við innflutningi, sölu og notkun skyndigreiningarprófa fyrir Covid-19 verður að byggja á ákvæðum settra laga þar sem skýrlega er mælt fyrir um þá frelsistakmörkun sem til stendur að framfylgja. Þarna dugar ekki til að settar séu reglugerðir eða birtar séu auglýsingar án þess að fyrir þeim sé skýr efnisleg og sértæk lagastoð sem tekur til þeirrar takmörkunar sem hin lægra setta réttarheimild mælir fyrir um,“ segir í bréfi lögfræðings FA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert