Rebekka Líf Ingadóttir
Um 8.000 manns streymdu í gegnum Laugardalshöll í dag þar sem börn fædd árin 2006 og 2007 fengu bólusetningu og mættu flestöll í fylgd foreldis eða forráðamanns. Að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, mættu um tveir þriðju boðaðra barna.
Ragnheiður segir krakkana hafa verið ótrúlega duglega og glaðlega, það hafi reynst vel að hafa foreldrana með og að dagurinn hefði í raun ekki getað gengið mikið betur.
„Það gekk alveg ljómandi vel, aðstæðurnar sem við breyttum í höllinni komu sér að góðum notum og sérstaklega aðstæðurnar þar sem við útbjuggum lítil rými, þar sem hægt er að vera í næði og gefa börnunum betri tíma. Þar fóru börn sem voru kvíðin og hrædd og kom að góðum notum.
Svo virkaði vel líka að foreldrarnir komu með, þannig að dagurinn gekk bara ótrúlega vel og það streymdu um 8.000 manns í gegnum höllina í dag,“ segir Ragnheiður.
Ragnheiður segir að þar sem dagurinn gekk svona vel muni allt haldast óbreytt fyrir morgundaginn. „Við gerum bara engar breytingar, við vorum viðbúin því að við þyrftum kannski að gera einhverjar breytingar eftir fyrri daginn en við ætlum bara að leggja í sömu uppskrift á morgun.
2009-árgangurinn er bara þeir sem eru fæddir út ágúst þannig það verða enn færri börn á morgun sem koma eftir hádegi og svo 2008-árgangurinn í fyrramálið. Þetta verður vonandi bara jafn ljúft.“