Heimilar notkun og sölu sjálfsprófa

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur í samráði við sóttvarnarlækni breytt reglugerð sem fjallar meðal annars um hrað- og sjálfspróf á þann veg að einstaklingum sé heimilt að nota sjálfspróf til greiningar Covid-19 á sjálfum sér. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Þá er heilbrigðisstarfsfólki eða öðrum sem hafa hlotið sérstaka þjálfun heilbrigðisstarfsmanns nú heimilt að framkvæma greiningu á veirunni með vottuðu hraðprófi. Því er slíkum stöðvum ekki lengur skylt að vera starfræktar af vottuðum rannsóknarstöðvum eins og reyndin hefur verið hingað til. 

Á öllum þeim sem framkvæma slík próf hvílir skylda til þess að tilkynna heilbrigðisyfirvöldum um ef niðurstaða prófanna reynist jákvæð, sóttvarnarlögum samkvæmt. Þá munu þeir þurfa að gangast undir PCR-próf til þess að staðfesta niðurstöðuna og þurfa að sæta sóttkví á meðan þeir bíða eftir niðurstöðunni úr því prófi.

Prófin þurfa enn fremur að uppfylla ákveðna staðla. Annars vegar að vera CE-vottuð og hafa 90% næmi. Hraðprófin þurfa að hafa 97% sértæki og heimaprófin 95% sértæki samkvæmt reglugerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert