Unnur Freyja Víðisdóttir
Fulltrúar foreldra barna í Fossvogsskóla gagnrýna hvernig var staðið að skoðanakönnun sem Reykjavíkurborg sendi á starfsfólk og foreldra barna í skólanum þar sem þeir voru beðnir að kjósa um tilhögun skólahalds 2.-4. bekkjar á næstu vikum en mikil röskun hefur verið á skólastarfi vegna framkvæmda á húsnæði skólans eftir að mygla fannst þar árið 2017.
Er vitað til þess að einstaklingar sem hafa engin tengsl við Fossvogsskóla eða starfið sem þar fer fram hafi tekið þátt í könnuninni og þar með haft áhrif á niðurstöðu hennar en blaðamaður sannreyndi það með eigin þátttöku.
Samkvæmt upplýsingum Karls Óskars Þráinssonar, formanns foreldrafélags Fossvogsskóla, komu fulltrúar skólaráðsins og foreldrafélagsins efasemdum sínum um lögmæti könnunarinnar á framfæri við bæði skólastjórnendur og Skúla Helgason, aðalmann skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, en ekki er vitað til þess að brugðist hafi verið við þeim efasemdum.
Hvorki náðist í Skúla né Dag B. Eggertsson borgarstjóra við gerð fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, teymisstjóri samskiptateymis Reykjavíkurborgar, bað um að fá spurningar blaðamanns skriflega, en fyrirspurn hafði ekki verið svarað er Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi.
Í könnuninni var starfsfólki og foreldrum nemenda við skólann boðið að velja á milli þriggja kosta um staðsetningu kennslu. Höfðu þau aðeins sólarhringsfrest til að svara.