Andrés Magnússon
Í vor og sumar voru þess allir fullvissir að kosningabaráttan í haust yrði stutt og snörp og höfðu ýmsir á orði að allt færi á fullt eftir verslunarmannahelgi. Á því hefur þó orðið nokkur bið. Á miðvikudag er mánuður til kosninga.
Kannski það sé ekki nema von, hefðbundin stjórnmál hafa nokkuð mætt afgangi á dögum kórónuveirunnar, eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur bent á.
Þegar litið er til niðurstaðna í könnunum MMR allt frá kosningunum fyrir fjórum árum verður hins vegar ekki séð að einhver kaflaskil hafi orðið í fylgissveiflum frá því að heimsfaraldurinn kom til Íslands. Jú, það má merkja að stuðningur við ríkisstjórnina jókst þegar farsóttin geisaði, en stjórnarflokkunum hefur orðið mismikið úr. Það verður t.d. ekki séð að Vinstri græn, sem fara bæði með forsætisráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti, hafi fengið mikið fylgi fyrir sinn snúð. Jafnvel fengið skell, eins og gerðist um það leyti sem hópsmitið á Landakoti kom upp.
Nú þarf að lesa kannanir með fyrirvara um nákvæmni, vikmörkin eru nokkur og óvarlegt að taka hreyfingu um 1-2 prósentustig milli kannana of hátíðlega. Hjá því verður þó varla komist hjá smærri flokkunum, sem eru að fá milli 5-10% fylgi. En það má reyna að líta hjá hreyfingu milli einstakra kannana og horfa á hneigðina, líkt og sýnd er að ofan í myndritum um fylgi hvers flokks fyrir sig.