Þrjár sprengjuþotur af gerðinni B2 lentu á Keflavíkurflugvelli rétt fyrir níu í kvöld. Þoturnar komu í aðflugi að norðurenda flugvallarins og stungu sér þar niður úr þykkri þoku skammt frá brautarenda.
Í fréttatilkynningu bandaríska flughersins 2019 kom fram að lending B2 í Keflavík hafi verið æfing í þeim tilgangi að nota Keflavíkurstöðina sem útstöð fyrir B-2 og tryggja þannig að þotan sé tilbúin sem trúverðugt afl til að verja Bandaríkin og bandamenn þeirra í sífellt flóknara öryggisumhverfi.
Einungis 21 slík vél hefur verið framleidd og er þetta dýrasta flugvél sögunnar en hver vél kostar yfir 90 milljarða króna. B2 er öflugt hernaðartól og getur borið allt að 16 kjarnorkusprengjur.
Víkurfréttir birtu myndskeið sem kvikmyndatökumaður og ljósmyndari náði af vélunum er þær komu inn til lendingar.
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að vélarnar munu hafa tímabundið aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli næstu daga vegna æfinga. Vélarnar koma hingað til lands frá Bandaríkjunum og alls taka 200 liðsmenn flughersins þátt í verkefninu.
Með æfingunum gefst bandarísku flugsveitinni tækifæri til að kynnast staðháttum á Norður-Atlantshafi, þar með talið hér á landi og æfa með öðrum þjóðum Atlantshafsbandalagsins. Samskonar æfingar fara fram reglulega í Evrópu, síðast hér við land í mars.