Smit hjá starfsmanni á Landakoti

Landakot.
Landakot. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsmaður hjá Landakoti, öldrunarlækningadeild Landspítalans, greindist með Covid-19-smit um helgina. Hann hafði verið við störf í vikunni að því er kemur fram á vef Landspítalans.

Þar segir að umfangsmikil rakning hafi farið í gang strax á laugardagsmorgni þegar smitið varð ljóst. Ekki hafa greinst fleiri smit á deildinni en allir sjúklingar á deildinni og allir starfsmenn hafa skilað einu sýni. 

Fimm sjúklingar, sem starfsmaðurinn sinnti, eru í sóttkví.

Deildinni hefur verið lokað fyrir innlagnir og flutninga á milli stofnana þar til allri sóttkví hefur verið aflétt. 

Upp kom hópsmit á Landakoti í október í fyrra. Rekja má sautján andlát til hópsmitsins.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka