Þykir rúturnar verstar

Nemendur í 2. til 4. bekk Fossvogsskóla eru fluttir með …
Nemendur í 2. til 4. bekk Fossvogsskóla eru fluttir með rútum í skólann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skóla­stjórn­end­ur Foss­vogs­skóla segja að það hafi gengið vel á þess­um fyrsta skóla­degi barna í öðrum til fjórða bekk í tíma­bundnu hús­næði Hjálp­ræðis­hers­ins. Það er þó verið að aug­lýsa eft­ir starfs­fólki og ár­gang­ur­inn sem hóf skóla­göngu sína í ár er minni en sá sem út­skrifaðist í vor. 

Ingi­björg Ýr Pálma­dótt­ir, skóla­stjóri Foss­vogs­skóla, seg­ir að það fari vel um nem­end­ur og kenn­ara í hús­inu og að Hjálp­ræðis­her­inn hafi tekið ein­stak­lega vel á móti skól­an­um.

„Gæt­um verið bet­ur mönnuð“

Fyr­ir helgi hætti einn kenn­ari í Foss­vogs­skóla óvænt og hljóp Ingi­björg því sjálf inn í kennslu í ein­hverj­um tím­um. Hún seg­ir að skól­inn sé að aug­lýsa eft­ir kenn­ara. „Við gæt­um verið bet­ur mönnuð.“

Árni Freyr Thorlacius Sig­ur­laugs­son aðstoðarskóla­stjóri seg­ir að það sé vont að missa góða kenn­ara en hef­ur þó ekki mikl­ar áhyggj­ur af fram­hald­inu enda hafi kenn­ar­ar strax sýnt starf­inu áhuga.

Óviss­an hef­ur ekki hjálpað til við að halda kenn­ur­um að sögn Árna, en kenn­ar­inn sem hætti ný­verið var fjórði kenn­ar­inn sem skól­inn miss­ir frá því í vor. 

Rút­urn­ar verst­ar

Hús­næði Hjálp­ræðis­hers­ins er gott og and­inn góður, að sögn Árna. Það sem hon­um þykir aft­ur á móti verst er þurfa að flytja nem­end­ur í skól­ann með rútu. Það taki tíma, fjár­magn og valdi meng­un.

Árni seg­ir að skól­inn gangi út frá því að um tíma­bundið ástand sé að ræða og að hægt verði að flytja starf­sem­ina í fær­an­leg­ar kennslu­stof­ur eft­ir þrjár vik­ur, sam­kvæmt áætl­un. „Það þarf samt ekki mikið að ger­ast til þess að þetta drag­ist um nokkr­ar vik­ur.“

Ein­hverj­ir hugsi sinn gang

„Við erum í göng­um núna og ljósið er ansi langt í burtu en það nálg­ast.“ Mesta áfallið í þessu þriggja ára óvissu­ferli skól­ans var í vor, að mati Árna, þegar rýma þurfti skól­ann í annað skiptið, ný­upp­gerðan.

Ein­hverj­ir for­eldr­ar hafa tekið ákvörðun um að færa börn sín í aðra skóla og færri börn byrja nú í fyrsta bekk en áður. Árgang­ur­inn sem fór úr Foss­vogs­skóla yfir í Rétt­ar­holts­skóla var 56 krakk­ar en ár­gang­ur­inn sem hóf skóla­göngu núna var 45.

Árni seg­ir að þessi ósköp sem elt hafa Foss­vogs­skóla hljóti að hafa áhrif. „Skól­inn hef­ur fengið mikla um­fjöll­un í fjöl­miðlum þannig að ein­hverj­ir hugsa ef til vill sinn gang.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka