Þykir rúturnar verstar

Nemendur í 2. til 4. bekk Fossvogsskóla eru fluttir með …
Nemendur í 2. til 4. bekk Fossvogsskóla eru fluttir með rútum í skólann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skólastjórnendur Fossvogsskóla segja að það hafi gengið vel á þessum fyrsta skóladegi barna í öðrum til fjórða bekk í tímabundnu húsnæði Hjálpræðishersins. Það er þó verið að auglýsa eftir starfsfólki og árgangurinn sem hóf skólagöngu sína í ár er minni en sá sem útskrifaðist í vor. 

Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, segir að það fari vel um nemendur og kennara í húsinu og að Hjálpræðisherinn hafi tekið einstaklega vel á móti skólanum.

„Gætum verið betur mönnuð“

Fyrir helgi hætti einn kennari í Fossvogsskóla óvænt og hljóp Ingibjörg því sjálf inn í kennslu í einhverjum tímum. Hún segir að skólinn sé að auglýsa eftir kennara. „Við gætum verið betur mönnuð.“

Árni Freyr Thorlacius Sigurlaugsson aðstoðarskólastjóri segir að það sé vont að missa góða kennara en hefur þó ekki miklar áhyggjur af framhaldinu enda hafi kennarar strax sýnt starfinu áhuga.

Óvissan hefur ekki hjálpað til við að halda kennurum að sögn Árna, en kennarinn sem hætti nýverið var fjórði kennarinn sem skólinn missir frá því í vor. 

Rúturnar verstar

Húsnæði Hjálpræðishersins er gott og andinn góður, að sögn Árna. Það sem honum þykir aftur á móti verst er þurfa að flytja nemendur í skólann með rútu. Það taki tíma, fjármagn og valdi mengun.

Árni segir að skólinn gangi út frá því að um tímabundið ástand sé að ræða og að hægt verði að flytja starfsemina í færanlegar kennslustofur eftir þrjár vikur, samkvæmt áætlun. „Það þarf samt ekki mikið að gerast til þess að þetta dragist um nokkrar vikur.“

Einhverjir hugsi sinn gang

„Við erum í göngum núna og ljósið er ansi langt í burtu en það nálgast.“ Mesta áfallið í þessu þriggja ára óvissuferli skólans var í vor, að mati Árna, þegar rýma þurfti skólann í annað skiptið, nýuppgerðan.

Einhverjir foreldrar hafa tekið ákvörðun um að færa börn sín í aðra skóla og færri börn byrja nú í fyrsta bekk en áður. Árgangurinn sem fór úr Fossvogsskóla yfir í Réttarholtsskóla var 56 krakkar en árgangurinn sem hóf skólagöngu núna var 45.

Árni segir að þessi ósköp sem elt hafa Fossvogsskóla hljóti að hafa áhrif. „Skólinn hefur fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum þannig að einhverjir hugsa ef til vill sinn gang.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert