Boðar ekki til sáttafundar í dag

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ríkissáttasemjari kveðst ekki gera ráð fyrir því að boðað verði til annars sáttafundar í dag í kjaraviðræðum milli Félags flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Isavia. 

„Við erum búin að eiga sextán fundi í þessari kjaradeilu og funduðum mjög stíft undanfarna daga,“ segir Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari. 

Formenn samninganefndanna fá nú rými til þess að fara yfir stöðuna með sínu baklandi. Aðalsteinn hefur í hyggju að boða fund á næstu dögum. Slík boðun er þó háð því að annar aðili eða báðir séu móttækilegir fyrir því að ná sáttum. 

Gott að taka eitt skref til baka

„Það hefur átt sér stað gott samtal og við höfum farið í mikla greiningarvinnu við að máta ólíkar leiðir. Eftir tvo maraþon-fundi er gott að taka eitt skref til baka og meta hvort það séu aðrar leiðir færar.“

Arnar Hjálmsson, formaður félags flugumferðarstjóra, leiðir samningaviðræður fyrir félagið. Hann tjáði blaðamanni í gær að bakslag hafi komið í viðræðurnar og því væri ekkert annað í stöðunni en að grípa til vinnustöðvunar 31. ágúst. 

Mörg samningsatriði undir

Aðalsteinn segir það vel þekkt að erfitt geti reynt að ná saman í svona málum þar sem mörg samningsatriði eru undir og margar ólíkar útfærslur. 

Aðspurður hvort hann telji líklegt að sátt náist í málinu fyrir 31. ágúst, þegar vinnustöðvun á að fara fram, segist Aðalsteinn bjartsýnn á að það verði áfram mikið unnið í málinu. 

„Ég er líka bjartsýnn á að báðir aðilar noti þann þrýsting sem uppi er vegna yfirvofandi aðgerða á uppbyggilegan hátt til þess að setja aukinn kraft í að ná samkomulagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert