Flugumferðarstjórar grípa til vinnustöðvunar

Frá fundi flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins í dag. Hann var …
Frá fundi flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins í dag. Hann var býsna langur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fundi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Isavia, var slitið nú á tólfta tímanum í kvöld. Ekkert samkomulag náðist á fundinum og munu flugumferðarstjórar því grípa til vinnustöðvunar.

Fundurinn hófst klukkan eitt eftir hádegi í dag, mánudag, og stóð hann því í tæpar 11 klukkustundir.

„Þessi fundur var ekkert frábrugðinn öðrum. Það kom smá bakslag en báðir aðilar reyndu sitt besta, að ég held. Það náðist ekki ásættanleg niðurstaða á þessum fundi,“ segir Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra. 

Eina leiðin eftir bakslög

Hann segir því ekkert annað í stöðunni en að grípa til vinnustöðvunar part úr degi þann 31. ágúst næstkomandi. Vinnustöðvunin hefur verið boðuð en hún var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta 9. ágúst síðastliðinn. 

Þá voru reyndar sex sjálfstæðar og tímasettar vinnustöðvanir samþykktar en var ákveðið að sleppa að boða hinar fimm þar sem viðræður þokuðust þá í rétta átt. Nú hafa komið bakslög í viðræðurnar að sögn Arnars og því ætla flugumferðarstjórar að grípa til vinnustöðvunar.

Ekki hefur verið boðaður nýr sáttafundur í deilunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka