Nú dvelja um 150 manns í farsóttarhúsum, þar af um 120 í einangrun.
Eins og nýtilkomin reglugerðarbreyting kveður á um eiga aðeins þeir sem þurfa í einangrun að fá inni í farsóttarhúsum, en Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður þeirra, segir að í undantekningum sé fólk sem sætir sóttkví veitt pláss.
„Í þessu tilfelli er þetta fólk sem er að koma frá Afganistan meðal annars,“ segir hann við mbl.is.
Gylfi segir að samningar stjórnvalda við hina ýmsu aðila um rekstur farsóttarhúsa renni út í næsta mánuði. Verði ekki samið upp á nýtt þurfi að loka húsunum, sem verður að teljast ólíkleg framvinda.
Því segist hann vongóður um að samningar um farsóttarhús verði áfram tryggðir. Nú séu þrjú slík hús starfrækt og vel gangi að sinna verkefnum, enda mönnun auðveldari nú þegar aðeins þarf að þjónusta fólk í einangrun.
„Já, það eru núna þrjú hús opin, eitt á Akureyri og tvö hérna í Reykjavík. Við erum nýbúin að loka Hótel Stormi og svo er ráðgert að loka Rauðará von bráðar. Þá höldum við Hótel Lind og Fosshóteli við Þórunnartún opnum auk hótelsins á Akureyri.“