Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir fyrst og fremst leiðinlegt að sjá fólk mótmæla bólusetningum barna, sér í lagi þegar það er gert í þeirra viðurvist. Hann segist vart skilja að fólk sem telji sig bera hagsmuni barna fyrir brjósti skuli taka upp á slíku, það gangi í berhögg við það sem það telur sig standa fyrir.
Rúv greindi frá því í morgun að karlmaður hafi mótmælt við Laugardalshöll þar sem nú fara fram bólusetningar á börnum á aldrinum 12-15 ára. Í myndbandi sem fylgdi fréttinni má sjá hvernig karlmaðurinn hrópar að viðstöddum að verið sé að sprauta börn með efnavopnum.
„Þetta er fyrst og fremst bara leiðinlegt, sérstaklega af því þeir sem hafa verið að mótmæla þessu segjast bera hag barna fyrir brjósti. Ég fæ ekki séð að þeim hag sé best borgið með því að hrópa á börn í þessum aðstæðum,“ segir Víðir við mbl.is.
Víðir segir að stöðug fækkun smita síðustu daga sé sannarlega jákvæð þótt ekki sé hægt að hrósa happi á meðan smittölur séu enn í kringum 60-70 á degi hverjum. Þó sé það ánægjulegt, sérstaklega með tilliti til nýhafins skólaárs, að smitum fari fækkandi en ekki fjölgandi.
Smitrakning segir Víðir að gangi talsvert betur núna en á toppi líðandi bylgju. Smitrakningarteymið þoli síður það ástand þegar smitfjöldi er allt að 120-140 á degi hverjum, vinnslugetan sé frekar í hámarki í kringum 60-70 smit á dag eins og nú er.
Hann segir einnig að ekki sé fyrirhugað að almannavarnir færist niður af hættustigi og á óvissustig. Á meðan heimsfaraldur geisar enn verður óvissustig ætíð í gildi og á meðan smit eru jafnmörg og raun ber vitni í dag, sé ólíklegt að hættustigi verði afstýrt.
„Við ræddum það á sínum tíma þegar smit voru hvað fæst hérna fyrr í sumar og búið var að aflétta öllum takmörkunum hvort tilefni væri til þess að færa starfsemina niður á óvissustig. En svo kom þessi bylgja og við vorum frekar nær því að fara frekar upp á neyðarstig en niður á óvissustig,“ segir Víðir.
Miðað við stöðuna eins og hún birtist í dag segir Víðir að sé ekki endilega tilefni til stórtækra afléttinga á sóttvarnatakmörkunum innanlands. Hann segir að enn greinist um 60 smit á degi hverjum og því sé varasamt að fara of geyst.
„Maður upplifir það í samtölum við marga að það eru ótal aðilar sem eru á varðbergi. Skólarnir eru með strangari samkomutakmarkanir, þar eru 100 manna sóttvarnahólf þrátt fyrir 200 manna samkomutakmarkanir. Eins eru fyrirtæki að hólfa niður sína starfsemi þá til þess að forðast að starfsemi raskist vegna smits,“ segir Víðir.
„Ég held miðað við ástandið núna að það sé ekki mikið tilefni til einhverra stórkostlegra tilslakana en það verður þó vonandi eitthvað,“ bætir hann við.