Heill bekkur í úrvinnslusóttkví á Ísafirði

Edinborgarhúsið á Ísafirði þar sem Háskólasetur Vestfjarða leigir sal til …
Edinborgarhúsið á Ísafirði þar sem Háskólasetur Vestfjarða leigir sal til kennslu. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Þrír meistaranemar í Háskólasetrinu á Vestfjörðum greindust með Covid-19 í dag. 40 bekkjarfélagar hinna smituðu, sem eru allir á fyrra ári meistaranáms, eru komnir í úrvinnslusóttkví. Þetta staðfestir Peter Weiss, forstöðumaður setursins, í samtali við mbl.is.

„Þetta voru einkennasýnatökur í dag og svo voru þeir nokkrir sem fóru í sýnatöku eftir að hafa verið í miklum samskiptum við þá smituðu,“ segir Peter sem var að útbúa aðstöðu fyrir einangrun hinna smituðu síðdegis í dag.

Deila húsnæði með öðrum nemendum

Þeir sem greindust smitaðir í dag leigja húsnæði í miðbæ Ísafjarðar ásamt samnemendum sínum. Núna þarf að skipta þeirri íbúð upp og sótthreinsa til þess að takmarka snertifleti og koma hinum smituðu fyrir í öðrum íbúðum.

Peter segir nemendur hafa verið saman í Edinborgarhúsinu. „Við leigjum stóran sal í Edinborgarhúsi undir nemendur svo við erum með gott rými,“ segir Peter en hann gerir ráð fyrir því að rakningarteymið sendi alla í skimun á morgun.

Í morgun voru 8 með virkt smit á Vestfjörðum og 11 í einangrun. Þær tölur kunna að hækka næstu daga á meðan smitrakningarteymið rekur dreifingu smitanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert